The Times greinir frá því að enska stórveldið Manchester City er með í kapphlaupinu um miðvörðinn eftirsótta Marc Guéhi.
Guéhi er algjör lykilmaður í sterku liði Crystal Palace og var næstum búinn að skipta til Englandsmeistara Liverpool síðasta sumar, en ekkert varð úr þeim áformum eftir að Palace mistókst að finna arftaka fyrir varnarmanninn.
Guéhi rennur út á samning næsta sumar og ætlar ekki að endurnýja. Hann getur því skipt um félag á frjálsri sölu í júlí.
Þýska risaveldið FC Bayern er áhugasamt og ætlar að setja sig í samband við Guéhi strax eftir áramót. Man City og Liverpool þurfa að bíða með að hefja opinberar viðræður við leikmanninn vegna alþjóðlegra reglna um félagaskipti, en það er ekkert sem kemur í veg fyrir óformleg samtöl við umboðsteymið hans.
Guéhi er 25 ára gamall og hefur leikið 26 landsleiki fyrir enska landsliðið. Á síðustu leiktíð var hann gagnrýndur fyrir að skrifa umdeild skilaboð á regnbogaarmbandið sem hann bar sem fyrirliði Crystal Palace.
Athugasemdir



