Ruben Amorim þjálfari Manchester United svaraði spurningum fréttamanna eftir svakalegan fótboltaleik á Old Trafford sem endaði með átta marka jafntefli.
Heimamenn í liði Man Utd tóku forystuna þrisvar sinnum í leiknum en tókst ekki að sigra. Þá voru þeir einu marki undir í um 25 mínútur í síðari hálfleik.
Rauðu djöflarnir voru talsvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en klúðruðu mikið af góðum færum.
„Við erum mjög vonsviknir eftir þennan klikkaða leik. Það lítur kannski út fyrir að við höfum tapað tveimur stigum í síðari hálfleik en ég held að við höfum tapað þeim í fyrri hálfleiknum," sagði Amorim. „Við stjórnuðum leiknum og fengum svo mörg færi til að skora í þessum fyrri hálfleik, við áttum að fara inn í leikhléð með stærri forystu. Við áttum skilið að vinna þennan leik.
„Þetta var mjög skemmtilegur leikur fyrir áhorfendur og þeir voru vonandi ánægðir að sjá sóknarleikinn okkar sem var ótrúlega góður á köflum. Þetta var góð frammistaða en við verðum að nýta færin okkar betur, við fengum svo mikið af færum sem fóru forgörðum. Við verðum að finna leiðir til að klára svona leiki. Við erum búnir að tapa svo mörgum stigum útaf því að við náum ekki að ganga frá leikjum."
Markvörðurinn Senne Lammens fékk sinn skerf af gagnrýni á meðan á leiknum stóð þar sem hann hefði átt að gera betur í að minnsta kosti einu markanna.
„Lammens varði mjög vel á köflum og bjargaði stiginu fyrir okkur á lokamínútunum."
Amorim var svo spurður út í leikkerfið sitt enn eina ferðina.
„Það er margt sem við þurfum að bæta við okkar leik, við verðum að passa upp á smáatriðin. Það eru hersluatriði sem eru að valda því að við töpum stigum, ekki leikkerfið. Þetta væri alveg eins hvort sem við myndum spila með þriggja, fjögurra eða fimm manna varnarlínu. Þetta snýst um hvernig leikmennirnir verjast.
„Þegar öllu er á botninn hvolft vorum við betra liðið í dag gegn mjög sterkum andstæðingum og áttum að vinna, en það tókst ekki."
Athugasemdir



