Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   mið 14. apríl 2021 07:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Guðjón Pétur: Fannst þetta langmest spennandi verkefnið
Gaui Lýðs í ÍBV treyjunni
Gaui Lýðs í ÍBV treyjunni
Mynd: ÍBV
Eiður Aron Sigurbjörnsson
Eiður Aron Sigurbjörnsson
Mynd: ÍBV
Gaz Bov Martin
Gaz Bov Martin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Stjörnunni í fyrra
Í leik með Stjörnunni í fyrra
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðjón Pétur Lýðsson skrifaði á mánudag undir samning við ÍBV og mun leika með liðinu næstu tvö árin. Hann kemur til félagsins frá Breiðabliki en Gaui hafði verið leikmaður Blika frá vorinu 2019.

Hann átti frábært tímabil 2019 þegar Blikar enduðu í öðru sæti deildarinnar en hann var aldrei inn í myndinni hjá Óskari Hrafni Þorvaldssyni sem tók við Blikum af Ágústi Gylfasyni eftir tímabilið 2019. Gaui var lánaður til Stjörnunnar í fyrra en hefur nú yfirgefið Blika. Hér í þessum fyrsta hluta verða birt svör Guðjóns við spurningum um ÍBV. Viðtalið er alls í þremur hlutum.

Hvernig er að vera kominn í ÍBV?
„Það er mikill heiður að vera kominn í svona flottan klúbb sem ætlar sér stóra hluti.“

Í fjórða skiptið sem ÍBV reynir að fá Gauja
Hvernig var aðdragandinn að skiptunum?

„Þetta er í fjórða skiptið sem þeir hafa gert atlögu að mér. Ég var kominn á slæman stað hjá Breiðabliki, var ekki inni í myndinni þar og sá ekki fram á að vera í nógu stóru hlutverki og í rauninni gáfu þeir mér tækifæri á að fara inn í nýtt umhverfi til að sanna mig upp á nýtt. Vonandi næ ég að hjálpa ÍBV að komast upp um deild og gera flotta hluti.“

Ekki kominn til að gera neitt annað en að koma liðinu upp
Hvernig líst þér á komandi leiktíð og leikmannahópinn? Þú ert að hitta fyrir þekktar stærðir eins og Eið Aron og Gary Martin, er þetta ekki klár krafa að fara upp úr þessari deild?

„Jú, það er klár krafa að félag eins og ÍBV sé ekki í fyrstu deild. Auðvitað er krafa að liðið sé ekki þar sem það er núna og auðvitað er stefnan að gera allt sem hægt er til að koma liðinu upp. Ég er ekki kominn til félagsins til að gera neitt annað en það.“

Eiður og Gary ekki látið Gauja í friði
Þú spilaðir með Eiði Aroni hjá Val, ertu spenntur að spila með honum í sumar?

„Ég spilaði með Eiði í tvö ár og við náðum í tvo góða Íslandsmeistara saman, áttum frábæra tíma. Hann og Gary mega eiga það að þeir hafa ekki látið mig í friði um að koma til Eyja og stór ástæða fyrir því að ég er að fara til Eyja er bara af því ég var að fá hringingar hægri vinstri frá mínum mönnum í Eyjum."

„Á endanum gat ég eiginlega ekki annað en hoppað á þetta. Þetta var skemmtilegt ævintýri sem ég sá fyrir mér og metnaðarfullur klúbbur. Það er verið að gera mikið til að hafa umgjörðina sem besta og menn ætla setja almennilega í þetta til að vonandi gleðja Eyjamenn og koma liðinu þangað sem það á heima.“


Langmest spennandi verkefnið
Þú talar um að þetta sé ekki í fyrsta skiptið sem félagið reynir að fá þig. Ert þú á öðrum stað eða ÍBV miðað við hvernig þetta var þegar félagið reyndi að fá þig í hin skiptin?

„Það lá ekki við á þeim tímapunktum og ég valdi aðra valkosti. Nú er staðan sú að þeir voru áhugasamasta liðið að fá mig og ég get sagt að af þeim valkostum sem ég hafði þá fannst mér þetta langmest spennandi verkefnið."

„Ég gat alveg farið í lið í efstu deild en mér fannst þetta bara skemmtilegt verkefni, verðug áskorun að hjálpa svona stórum klúbbi að komast aftur þar sem hann á heima."

„ÍBV hefur alveg bolmagn til að keppa við bestu lið ársins og það verður keyrt á að gera það á næstu árum.“


Breiðablik best mannaða liðið í deildinni
Er eitthvað sem þú vilt bæta við þetta viðtal?

„Ég óska Blikum góðs gengis í sumar og vona að þeir nái að gera það sem ég ætlaði mér að gera, að ná í þennan stóra titil og þeir eru með best mannaða liðið í deildinni og vonandi ná þeir þeim markmiðum."

„Það hefði verið gaman að taka þátt í því en ég met það á þann veg að það sé skemmtilegra á mínum aldri að láta til sín taka inn á vellinum. Ég tel mig hafa mikið fram að færa og þannig verður það. Vonandi gengur Blikum sem allra best,“
sagði Guðjón Pétur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner