þri 15. nóvember 2022 10:57
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Velja tíu flottustu treyjurnar á HM
Eriksen í dönsku treyjunni.
Eriksen í dönsku treyjunni.
Mynd: Getty Images
Tískutímarítið GQ hefur birt lista yfir tíu flottustu búningana á HM í Katar.

Mótið hefst núna 20. nóvember og er opnunarleikurinn á milli Katar og Ekvador.

Úrúgvæ, Holland og Argentína eru í tíunda til áttunda sæti og svo koma Frakkland, Suður-Kórea og Túnis. Í fjórða sæti er varabúningur Englands og í þriðja sæti er heimabúningur Japan.

Í öðru sæti kemur heimabúningur Mexíkó og á toppnum er þriðji búningur Danmerkur.

Danski íþróttavöruframleiðandinn Hummel framleiðir búninga Danmerkur. Merkingin á bak við búningana er tvíþætt. Annars vegar sækir hann innblástur sinn frá liðinu sem fór með sigur af hólmi 1992. Þá er búningnum líka ætlað að vera notaður í mótmælaskyni fyrir mótið.

„Þess vegna er dregið úr öllum smáatriðum á þessum nýja búningi, þar á meðal merkinu okkar. Við viljum ekki vera sýnileg á móti sem hefur kostað þúsundir manns líf sitt. Við styðjum danska landsliðið alla leið, en við styðjum það ekki að Katar fái að halda mótið," sagði í yfirlýsingu Hummel en svarti búningur Danmerkur þykir einstaklega flottur. Hægt er að sjá Christian Eriksen, helstu stjörnu danska liðsins, í búningnum á meðfylgjandi mynd.

Mannréttindi og aðbúnaður farandverkamanna í Katar hafa verið gagnrýnd harðlega í aðdraganda HM. Fjölmargir hafa látið lífið í Katar frá því þau tíðindi bárust að mótið yrði haldið þar í landi. Það hafa verið fréttir um það að verkamenn séu að vinna lengi í miklum hita án þess að fá nægilega mikið magn af mat og vatni.

Hægt er að skoða lista GQ í heild sinni með því að smella hérna.
Athugasemdir
banner
banner
banner