Man Utd ætlar að reka Ten Hag - Hver tekur við? - Tuchel hefur áhuga á starfinu
banner
   mið 17. janúar 2024 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Eggert Aron: Vona að ég sé að setja fordæmi fyrir íslensk félög
Eggert Aron hér fyrir miðju.
Eggert Aron hér fyrir miðju.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Í fyrsta A-landsleiknum.
Í fyrsta A-landsleiknum.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Var frábær með Stjörnunni síðasta sumar.
Var frábær með Stjörnunni síðasta sumar.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Hefur mikla trú á Stjörnuliðinu.
Hefur mikla trú á Stjörnuliðinu.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Eggert gekk á dögunum í raðir Elfsborg, sem er eitt besta liðið í Svíþjóð.
Eggert gekk á dögunum í raðir Elfsborg, sem er eitt besta liðið í Svíþjóð.
Mynd: Elfsborg
Spennandi verkefni.
Spennandi verkefni.
Mynd: Elfsborg
Markvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson er einnig á mála hjá Elfsborg.
Markvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson er einnig á mála hjá Elfsborg.
Mynd: Guðmundur Svansson
'Mér finnst þetta mikill heiður fyrir mig og Stjörnuna'
'Mér finnst þetta mikill heiður fyrir mig og Stjörnuna'
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
'Ég get ekki beðið'
'Ég get ekki beðið'
Mynd: Elfsborg
Eggert Aron Guðmundsson spilaði um liðna helgi sinn fyrsta A-landsleik þegar hann spilaði allan leikinn í 1-0 sigri gegn Guatemala á Miami í Bandaríkjunum. Þetta verður eflaust ekki síðasti landsleikur Eggerts en þarna er á ferðinni afar efnilegur leikmaður sem sprakk gjörsamlega út með Stjörnunni í Bestu deildinni síðasta sumar.

Eggert, sem gekk nýverið í raðir sænska félagsins Elfsborg, ræddi við Fótbolta.net fyrir handboltaleikinn hörmulega gegn Ungverjalandi í gærkvöldi.

„Það var bara gaman, góð upplifun að spila sinn fyrsta landsleik á frábærum velli í Miami þar sem okkar maður Messi spilar," segir Eggert um fyrsta landsleikinn. „Þetta var frekar lokaður leikur en við áttum að mínu mati skilið að vinna hann."

Stefnt á þetta lengi
Eggert var einn þriggja í byrjunarliðinu sem spiluðu sinn fyrsta A-landsleik en hinir voru Birnir Snær Ingason og Brynjólfur Willumsson.

„Það kom mér kannski ekki á óvart að byrja. Fyrst ég er í hópnum, þá býst ég við að byrja leiki. Það var ógeðslega gaman að heyra að maður væri að byrja. Ég hef stefnt að þessu frá því ég var lítill krakki. Það var frábært að fá að spila 90 mínútur."

Eggert átti þátt í frábæru sigurmarki sem Ísak Snær Þorvaldsson, leikmaður Rosenborg, skoraði.

„Þetta var flott mark. Ég fæ boltann frá Stefáni og fæ tvo varnarmenn í mig. Ég gef á Loga sem kemur með góða fyrirgjöf á Jason og hann battar hann niður á Ísak sem klárar frábærlega. Geðveik afgreiðsla. Það er alltaf gaman að vinna og það getur gefið liðinu mjög mikið þó þetta sé æfingaleikur," segir Eggert en strákarnir lögðu mikið á sig til að næla í sigurinn. Þeir köstuðu sér fyrir hvern boltann undir lokin.

„Við horfum á þetta sem alvöru leiki. Það var frábært að sjá okkar menn henda sér fyrir boltann í lokin. Ef þú spilar fyrir íslenska landsliðið þá á þetta að vera hugarfarið: Að gera allt til að verja markið okkar."

„Heilt yfir var ég mjög sáttur við mína frammistöðu. Ég var að spila á hægri kantinum en það er eitthvað sem ég hef ekki gert núna í dágóðan tíma. Ég átti góða spretti og gerði líka mín mistök. Það er partur af þessu en heilt yfir er ég sáttur."

Upplifunin af fyrsta A-landsliðsverkefninu hefur verið skemmtileg en strákarnir okkar mæta Hondúras eftir miðnætti. Það verður annar krefjandi leikur.

„Það er ótrúlega gaman að vera hérna með góðu fólki við toppaðstæður á Miami. Það er bara frábært, gerist ekki betra," segir Eggert en hvernig fékk hann að vita að hann væri í þessum landsliðshóp?

„Þetta var ósvarað símtal þar sem ég var að spila leik með Stjörnunni á móti Val. Jökull segir 'til hamingju' við mig í upphitun og ég vissi ekki alveg hvað það þýddi. Ég hringdi til baka og þá var það Jói Kalli að segja að ég hefði verið valinn í landsliðið. Það var frábær tilfinning."

Stjarnan á eftir að gera góða hluti
Eftir að landsliðsverkefninu er lokið, þá mun Eggert fara til Svíþjóðar en hann skrifaði nýverið undir samning við félagið. Elfsborg kaupir Eggert og ef tikkað verður í flest boxin í kaupsamningnum þá verður hann nálægt því að verða dýrasti leikmaður sem seldur hefur verið frá Íslandi.

Hann skrifar undir samning sem gildir fram á sumarið 2028 en Eggert verður tvítugur í febrúar.

„Ég get ekki beðið eftir því að fara til Elfsborg og byrja þar, sýna hvað ég get, bæði fyrir þjálfaranum og stuðningsmönnum," segir þessi efnilegi leikmaður.

Eggert átti frábært tímabil í Bestu deildinni á síðasta tímabili og var valinn efnilegasti leikmaður Íslandsmótsins. Hann kveður Stjörnuna með söknuði en hefur trú á því að liðið muni halda áfram að gera góða hluti.

„Það er erfitt að kveðja stað sem þú hefur alltaf verið á, þar sem allir vinir mínir eru. Þjálfarinn er frábær og stuðningurinn sem ég hef fengið frá Stjörnufólki hefur verið ómetanlegur. Ég er endalaust þakklátur fyrir það. Ég held að það sé tímabært að ég fari annað. Það kemur maður í minn stað hjá Stjörnunni, það er bara þannig. Við erum með það góðan þjálfara og það gott kerfi að ég hef engar áhyggjur af liðinu," segir Eggert.

„Jökull (Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar) er bara frábær. Þetta var besti tíminn á Stjörnuferlinum. Það vita allir hvernig við viljum spila og hann náði einhvern veginn að koma mér í uppáhalds stöðuna mína. Ég fékk boltann mikið. Samstaðan er mikil í þessum frábæra hóp."

„Ég vona að flestir í Stjörnunni horfi jákvætt til mín og voni það að mér gangi vel úti. Stjarnan á eftir að gera góða hluti á næstu árum ef þeir halda áfram eins og þeir hafa verið að gera með Jökul sem þjálfara."

Félag á mikilli uppleið
Elfsborg endaði í öðru sæti sænsku Allsvenkan á síðasta tímabili. Hákon Rafn Valdimarsson og Sveinn Aron Guðjohnsen eru leikmenn Elfsborg og Andri Fannar Baldursson er á láni hjá félaginu frá Bologna fram í sumargluggann.

„Þetta er fyrst og fremst félag sem hefur verið á mikilli uppleið undanfarin ár," segir Eggert. „Ég tel þetta vera mjög gott skref fyrir mig. Ég og mín fjölskylda og umboðsmaður skoðuðum við mögulega áfangastaði mjög vel. Ég held að Elfsborg sé frábær staður til að byrja á."

Það var mikill áhugi á Eggert, skiljanlega, en hann valdi að fara til Elfsborg.

„Já það var áhugi, en þegar þetta var komið langt með Elfsborg þá var ekkert snúið við. Þeir náðu bara mjög vel til mín. Þeir voru lengi mjög áhugasamir og þetta var auðvelt á endanum."

Hákon Rafn er í landsliðsverkefninu með Eggerti. Eru þeir búnir að tala mikið um Elfsborg?

„Ég er búinn að tala aðallega við um bæinn sem ég er að flytja til. Ég spyr alveg Hákon út í hitt og þetta en við erum aðallega að tala á léttu nótunum."

Eggert átti möguleika á því að fara erlendis í haust en kaus frekar að klára tímabilið á Íslandi. Hann segir það hafa verið góða ákvörðun.

„Já, pottþétt. Ég fæ ekki að vita allt en bréfin urðu grænni með hverjum leiknum. Ég varð betri með hverjum leik og á endanum var það frábær ákvörðun að vera áfram í Stjörnunni. Ég fór úr því að vera efnilegur í það að vera einn sá besti í deildinni. Þetta var frábær ákvörðun," segir hann.

Sá dýrasti í sögunni?
Sparkspekingurinn Hjörvar Hafliðason sagði frá því að Eggert hefði verið seldur fyrir 900 þúsund evrur ef tikkað verður í ákveðin box. Hann verður þá dýrasti fótboltamaður sem hefur verið seldur frá Íslandi en Eggert er ánægður að vita hvað Elfsborg vildi mikið fá sig yfir til félagsins.

„Það var alveg vitað í smá tíma að ég væri að fara í Elfsborg. Það var bara tímaspursmál hvenær samningar myndu nást fyrst á milli Stjörnunnar og Elfsborg - sem var ekkert mál þannig séð - og Stjarnan fær góða summu sem þeir eiga skilið fyrir gott starf fyrir mig. Síðan var þetta bara á milli umboðsmannsins og félagsins að ná samkomulagi um kjör. Þetta tók á endanum einhverjar tvær vikur. Ég fór í byrjun janúar og kláraði þetta."

„Mér finnst þetta mikill heiður fyrir mig og Stjörnuna," segir Eggert um verðið. „Þetta sýnir hvað Elfsborg vildi mig mikið. Það er gott fyrir mig að félag vilji fjárfesta svona mikið í mér. Það gefur mér enn stærra hlutverk. Það er gott að ég get skilið eitthvað eftir fyrir Stjörnuna en ég vona líka að ég sé að setja fordæmi fyrir íslensk félög að selja leikmennina sína ekki á grínverði eins og hefur verið. Ég vona að þessi sala verði til þess að það verði sett meiri virðing á íslenska boltann."

Norðmaðurinn Jim Solbakken varð nýlega umboðsmaður Eggerts og hann aðstoðaði hann í ferlinu. Solbakken er með marga öfluga leikmenn á sínum snærum og nokkra stjóra líka, þar á meðal Ole Gunnar Solskjær.

„Ég var formlega orðinn leikmaður hjá honum 1. janúar. Hann er mjög stór prófíll og ég fíla hann, hvernig hann talar. Hann gerði gott fyrir mig. Ég er mjög ánægður með hann og ég held að hann hafi gert þetta frábærlega," segir Eggert en hann heldur til Svíþjóðar stuttu eftir að landsliðsverkefnið klárast.

„Ég kem heim í tvo daga, pakka og fer svo út. Ég verð í sirka fimm daga í Borås en svo förum við til Portúgal í æfingaferð. Ég get ekki beðið."
Athugasemdir
banner
banner
banner