mið 17. nóvember 2021 15:10
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Vita ekki hvernig FH komst að því að hann var með lausan samning
,,Pínu súrt að menn skuli ekki taka slaginn áfram með okkur"
Nonni Sveins
Nonni Sveins
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Haraldur Einar Ásgrímsson
Haraldur Einar Ásgrímsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kyle McLagan
Kyle McLagan
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór Aðalsteins
Arnór Aðalsteins
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir að Fram tryggði sér sæti í efstu deild á komandi tímabili, með því að vinna Lengjudeildina sannfærandi, hafa tveir leikmenn sem valdir voru í úrvalslið deildarinnar yfirgefið Fram.

Það eru þeir Kyle McLagan, sem samdi við Víking, og Haraldur Einar Ásgrímsson sem samdi við FH.

Auðvitað vont að missa þá
Fótbolti.net ræddi í dag við Jón Sveinsson, þjálfara Fram, um missinn á þessum lykilmönnum.

„Það er auðvitað vont að missa þá en þegar menn ná ekki samkomulagi þá endar þetta stundum svona. Það var vilji hjá okkar hálfu að halda þeim báðum en svona er þetta bara," sagði Nonni.

„Við þurfum að fylla þessi skörð, þeir voru báðir byrjunarliðsmenn og spiluðu stór hlutverk hjá okkur í sumar. Það er alveg ljóst að við þurfum að skoða hvernig við fyllum þeirra skorð."

Kom meira á óvart með Harald
Varstu nokkuð viss um að þeir yrðu áfram eða fannstu strax að þetta gæti endað svona?

„Það kom mér kannski meira á óvart með Harald en Kyle var svo sem mjög hreinskilinn allan tímann með sitt. Við vissum að Víkingur væri í viðræðum við hann."

Voruð þið ósáttir hvernig Víkingur nálgaðist Kyle? „Nei, þeir tilkynntu okkur að þeir ætluðu að tala við hann og ég held að það hafi farið eðlilega leið í sjálfu sér."

Arnór Aðalsteins gæti fyllt hluta skarðsins
Eruð þið með einhvern tímaramma sem þið ætlið að gefa ykkur í að finna nýja leikmenn í stað þessara tveggja?

„Það verður bara að koma í ljós, það fer eftir því hvernig markaðurinn er og hvað er í boði. Ef við horfum á síðasta tímabil þá erum við að missa þessa tvo leikmenn en við erum með leikmann eins og Arnór Daða Aðalsteinsson. Hann er búinn að vera úti í námi í Bandaríkjunum og spilaði sama og ekkert í sumar. "

„Hann var aðeins meiddur og hann er alkominn heim um áramótin. Það er strákur sem spilar bæði hafsent og vinstri bakvörð, við getum horft á hann sem möguleika. Við munum sjá hvernig veturinn þróast og hvað gerist en vissulega eru þetta skörð sem við verðum að fylla."


Vita ekki hvernig FH vissi
Rætt hefur verið um það í hlaðvörpum að Haraldur hafi verið settur á einhvers konar lista og FH-ingar hafi séð nafn hans á þeim lista. Í kjölfarið hafi FH svo sett sig í samband við vinstri bakvörðinn. Geturu sagt mér eitthvað um það?

„Nei, þú ert þá bara að segja mér fréttir. Haraldur var með uppsagnarákvæði á sínum samningi, nýtti sér ákvæði, og við fórum í samningsviðræðum við hann."

„Hvernig FH-ingar komust að því að hann væri með lausan samning er eitthvað sem við vitum ekki, en einhvern veginn gerðist það. Þeir nálguðust hann bara á þeim forsendum, höfðu ekkert samband við okkur þar sem hann var með lausan samning. Það endaði á þennan veg."

„Það er vont að missa hann og við höfðum gjarnan vilja halda honum. Hann tekur þessa ákvörðun út frá eigin forsendum og við verðum bara að lifa með því. Menn fara og koma, eins og gengur og gerist í þessu. Það hefur allavega gengið ágætlega undanfarin ár að fylla í skörð þeirra sem hafa farið frá okkur. Við reiknum með að það verður ekkert öðruvísi í þessum tilfellum."


Pínu súrt að menn skuli ekki taka slaginn áfram með okkur
Er áhyggjuefni að þið eruð að fara upp um deild og tveir lykilmenn ákveða að fara annað?

„Nei, það er ekkert áhyggjuefni þannig lagað sér. Auðvitað er það samt vont og vont fyrir félagið. Svona er þetta bara stundum og ég held að við munum finna leikmenn í þessar stöður án þess að vera í stórum vandræðum við það. En jú, auðvitað er alltaf vont að missa leikmenn sem þú vilt halda, búinn að gefa séns, búinn að stóla á og eiga þátt í að þeir leikmenn séu að ná árangri."

„Kannski á móti er það hrós á klúbbinn að vera með þessa leikmenn sem eru eftirsóttir af liðum sem voru að berjast í efri hlutanum í Pepsi. Ég held það hefði ekkert annað dugað til, til þess að fá þessa leikmenn til sín."

„Auðvitað er pínu súrt, að þegar við loksins förum upp og gerum það á þann hátt sem við gerðum í sumar, að menn skuli ekki taka slaginn áfram með okkur. Enn og aftur, svona er þetta og það eru tveir aðilar að semja. Þeir báðir þurfa að vera sáttir,"
sagði Nonni að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner