„Tilfinningin að vinna þennan leik var virkilega góð. Þetta var auðvitað á móti KR sem er mjög stórt fyrir Valsara. Það var mjög skemmtilegt að fá tækifæri og spila stóran leik. Maður finnur að það er meiri spenna í klúbbnum fyrir svona leiki og skemmtilegra að vinna KR en önnur lið. Það var virkilega gaman að vera partur af sigri Vals á KR," segir Lúkas Logi Heimisson, leikmaður Vals, við Fótbolta.net.
Lúkas var maður leksins þegar Valur vann 4-1 sigur á KR á mánudag; fékk tækifæri í byrjunarliðinu og þakkaði traustið með tveimur mörkum.
Lúkas var maður leksins þegar Valur vann 4-1 sigur á KR á mánudag; fékk tækifæri í byrjunarliðinu og þakkaði traustið með tveimur mörkum.
Lestu um leikinn: Valur 4 - 1 KR
„Ég fékk að vita að ég myndi byrja þegar byrjunarliðinu var stillt upp á æfingu í uppspili. Undirbúningurinn á leikdegi er svo sem ekkert öðruvísi, ég geri alltaf það sama."
„Mér leið virkilega vel inn á vellinum, leið mjög þægilega og liðið var virkilega gott og hjálpaði mér með undirbúninginn. Mér fannst það létta á mér líka að skora snemma, hjálpaði mér með framhaldið af leiknum."
Bæði mörk Lúkasar voru keimlík. Jónatan Ingi Jónsson var að rekja boltann og skildi hann svo eftir fyrir Lúkas sem lét vaða og átti tvö frábær skot.
„Ég er mjög sáttur með þessi mörk, mjög flott mörk. Við höfum ekkert verið að æfa þetta neitt sérstaklega, ég áttaði mig ekki á því að bæði mörkin voru svipuð fyrr en ég sá mörkin eftir leik. Þetta voru nokkuð lík mörk, stoðsendingarnar mjög líkar. Það er mjög gott að vera með mann eins og Jónatan í sínu liði."
„Ég man eftir því að hafa einu sinni skorað tvennu áður, það var með Fjölni á móti HK í Lengjudeildinni," segir Lúkas. Mörkin má sjá hér að neðan.
Lúkas Logi er 21 árs og kom til Vals frá uppeldisfélaginu Fjölni fyrir tímabilið 2023. Hann var að spila á vinstri kantinum gegn KR og fékk leyfi til að fara mikið inn á völlinn, staða sem hentaði honum mjög vel með Fjölni á sínum tíma. Á síðasta tímabili skoraði Lúkas Logi eitt mark í bikarnum en tókst ekki að skora í deildinni. Á mánudaginn var hann að skora sitt annað og þriðja mark í deildinni í sumar, þrefaldaði því markafjöldann sinn. Hann hefur tekið þátt í 20 deildarleikjum í sumar.
Hann er ekki alveg óvanur því að skora þýðingarmikil mörk því hans mikilvægasta mark fyrir Val er sennilega jöfnunarmarkið gegn Vllaznia í heimaleiknum í 1. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni.
Næsti leikur Vals verður gegn Stjörnunni á mánudag. Sá leikur er liður í 1. umferðinni eftir tvískiptingu.
Besta-deild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Víkingur R. | 22 | 15 | 4 | 3 | 56 - 23 | +33 | 49 |
2. Breiðablik | 22 | 15 | 4 | 3 | 53 - 28 | +25 | 49 |
3. Valur | 22 | 11 | 5 | 6 | 53 - 33 | +20 | 38 |
4. ÍA | 22 | 10 | 4 | 8 | 41 - 31 | +10 | 34 |
5. Stjarnan | 22 | 10 | 4 | 8 | 40 - 35 | +5 | 34 |
6. FH | 22 | 9 | 6 | 7 | 39 - 38 | +1 | 33 |
7. Fram | 22 | 7 | 6 | 9 | 31 - 32 | -1 | 27 |
8. KA | 22 | 7 | 6 | 9 | 32 - 38 | -6 | 27 |
9. KR | 22 | 5 | 6 | 11 | 35 - 46 | -11 | 21 |
10. HK | 22 | 6 | 2 | 14 | 26 - 56 | -30 | 20 |
11. Vestri | 22 | 4 | 6 | 12 | 22 - 43 | -21 | 18 |
12. Fylkir | 22 | 4 | 5 | 13 | 26 - 51 | -25 | 17 |
Athugasemdir