Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 18. október 2020 09:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Davíð Snorri: Athyglisvert og skrítið á sama tíma
Þórður Þórðarson, Arnar Þór Viðarsson og Davíð Snorri Jónasson.
Þórður Þórðarson, Arnar Þór Viðarsson og Davíð Snorri Jónasson.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U17 landsliðs Íslands, var á línunni í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 í gær.

Davíð og Arnar Þór Viðarsson stýrðu óvænt íslenska landsliðinu frá hliðarlínunni síðasta miðvikudag, gegn Belgíu í Þjóðadeildinni. Daginn áður hafði allt starfslið Íslands verið sent í sóttkví.

„Freyr hefur samband við mig seinni partinn á þriðjudag og spurði hvort ég gæti komið mér upp á hótel. Ég var með öll 'protocol' í lagi. Hann sagði mér hver staðan væri og auðvitað var maður klár í að hjálpa til. Maður vill alltaf hjálpa íslenska landsliðinu og vinum sínum," segir Davíð.

Á þriðjudeginum héldu Hamren og Freyr liðsfundi í gegnum fjarbúnað.

„Þegar ég kom á hótelið var búið að leysa flesta hnúta og við náðum að halda nokkuð óbreyttu plani varðandi fundi. Leikdagurinn var svo eins hefðbundinn og við gátum gert. Þetta var mjög athyglisvert og skrítið á sama tíma en með góðri samvinnu og liðsheild gátum við gert það allra besta úr þessu,"
Hann hrósar leikmönnum fyrir að sýna óvæntum aðstæðum skilning.

„Þó búið var að finna sjúkraþjálfara og annað þá þurfti að fá út úr testum áður en þeir fengu að koma inn. Leikmennirnir eru atvinnumenn í þessu og algjörir fagmenn. Þeir leystu þetta vel, það er mikil reynsla og það hjálpaði mikið í framkvæmd leiksins. Menn ætluðu ekki að láta utanaðkomandi aðstæður hafa áhrif á sig," segir Davíð.

Eins og frægt er þá voru Hamren og Freyr upp í glerbúri á Laugardalsvelli en voru í beinu sambandi við Davíð á hliðarlínunni.

„Ég var með í eyranu og þeir voru með betri yfirsýn en ég og Arnar svo þeir gáfu bara skilaboð. Þeir voru búnir að leggja leikinn upp frá A til Ö. Maður hefur stundum verið uppi og með Freysa niðri en þetta var ákveðin upplifun að hafa þetta öfugt. Þeir tóku ákvarðanir þarna uppi og stýrðu þessu vel."

Davíð segir að hálfleiksræðan hafi ekki verið tekin í gegnum fjarfundabúnað.

„Fyrir leik voru þeir í símasambandi og svo í hálfleik þá töluðum við saman og fengum punkta. Svo fórum við inn þegar við vorum búnir að því og komum skilboðum til leikmanna," segir Davíð en Belgar, sem tróna á toppi heimslistans, unnu 2-1 sigur.

„Þetta var fínasti leikur að mörgu leyti, spiluðum náttúrulega fimm manna vörn og vorum þéttir í fyrri hálfleik og í ágætis málum. Svo náðum við góðum köflum í seinni. Það hefði verið skemmtilegt að ná að jafna þetta í lokin."
Útvarpsþátturinn - Landsliðið, ástandið og enski
Athugasemdir
banner
banner
banner