lau 20. júlí 2019 12:30
Ívan Guðjón Baldursson
Forseti Boca Juniors: De Rossi kemur á næstu dögum
Mynd: Getty Images
Mikið hefur verið rætt um framtíð ítalska naglans Daniele De Rossi eftir að Roma ákvað að framlengja ekki samning hans.

Hann hefur verið orðaður við ýmis félög á Ítalíu og í Bandaríkjunum en nú virðist næsti áfangastaður vera kominn á hreint. Boca Juniors í Argentínu.

„De Rossi mun ganga til liðs við félagið á næstu dögum. Ég get staðfest þetta, það eru 99% líkur á að hann gangi til liðs við okkur," segir Daniel Angelici, forseti Boca Juniors.

De Rossi er þekktur fyrir mikla ástríðu en á tíma sínum hjá Roma hafnaði hann tilboðum frá stærstu félögum heims til að vera áfram í ítölsku höfuðborginni. Það er talin helsta ástæðan fyrir því að hann heldur til Boca, sem er þekkt fyrir ástríðufulla stuðningsmenn.

De Rossi verður 36 ára á næstu dögum og hefur ferill hans verið frábær. Hann lék fyrir Roma í 18 ár og er hetja í höfuðborginni auk þess að vera dáður um alla Ítalíu eftir landsliðsferilinn. Hann var yngstur í hópnum sem vann HM 2006 og hefur leikið 117 sinnum fyrir A-landsliðið.

Boca Juniors er sögufrægt félag og hefur gert frábæra hluti undanfarin ár. Félagið vann argentínsku deildina 2017 og 2018 og komst í úrslitaleik Suður-Ameríkubikarsins (Copa Libertadores) en tapaði þar fyrir erkifjendunum í River Plate.

Carlos Tevez er fyrirliði og má einnig finna menn á borð við Eduardo Salvio, Cristian Pavon og Mauro Zarate í herbúðum félagsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner