Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
banner
   mán 21. mars 2022 23:59
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Bjóst alveg við því að vera valinn - „Lít á þetta sem uppskeru"
Icelandair
Lék sína fyrstu landsleiki í janúar.
Lék sína fyrstu landsleiki í janúar.
Mynd: KSÍ
Íslands- og bikarmeistari með Víkingi áður en hann hélt aftur út í atvinnumennsku.
Íslands- og bikarmeistari með Víkingi áður en hann hélt aftur út í atvinnumennsku.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lék vel með U21 á síðasta ári.
Lék vel með U21 á síðasta ári.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Af U19 landsliðsæfingu árið 2019.
Af U19 landsliðsæfingu árið 2019.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Barkarson var á föstudag valinn í A-landsliðið í annað sinn á sínum ferli. Hann lék sína fyrstu landsleiki í janúar en þar áður hafði hann leikið fyrir yngri landsliðin - alls 34 leiki. Atli varð 21 árs á föstudag, hann spilar með SönderjyskE í Danmörku og leysir oftast stöðu vinstri bakvarðar.

Fréttaritari náði tali af Atla í gærkvöldi þegar hann var að horfa á El Clasico, leik Real Madrid og Barcelona í spænsku La Liga.

„Ég horfi talsvert á fótbolta, á hollenska, spænska og danska boltann eftir að ég kom út. Svo horfir maður á enska og íslenska eins og maður getur."

Atli samdi við SönderjyskE í janúar og kom frá Víkingi þar sem hann var í tvö ár. Þar áður var hann í Noregi og á undan því hjá Norwich. Ertu Norwich stuðningsmaður í enska?

„Nei... það er samt þannig að ber alltaf smá taugar til þeirra félaga sem maður hefur spilað fyrir og fylgist alltaf með þeim meira en öðrum liðum en ég er í grunninn Arsenal maður," sagði Atli léttur.

Siggi Dúlla sendi skemmtilegu tíðindin
Fréttaritari var fljótur að taka U-beygju þarna, ekki meira Arsenal tal, yfir í landsliðið.

„Ég fékk skilaboð frá Sigga Dúllu núna fyrir tveimur dögum. Það var hrikalega skemmtilegt að fá þau. Ég var alveg að búast við því að vera valinn, mér finnst ég vera búinn að standa mig vel og í síðustu ferð veit ég að Arnar þjálfari var ánægður með mig. Skemmtilegt að fá þetta kall."

Hefur alltaf fulla trú á sjálfum sér
Áttiru samtal við Arnar eftir leikina í janúar þar sem kom fram að það væri líklegt að þú yrðir valinn í næsta verkefni?

Sjá einnig:
„Nokkrir leikmenn sem ég hef verið mjög ánægður með" (15. jan)

„Arnar tók alla leikmenn á einstaklingsfundi og þar sagði hann mér hvernig hann sæi þetta, hvaða möguleika ég hefði og slíkt. Hann sagðist hafa verið ánægður með mig í ferðinni en ekkert þannig upp á framhaldið. Maður hefur samt alltaf fulla trú á sjálfum sér og því bjóst ég svona bæði við þessu og ekki."

Þú misstir allavega ekki hökuna þegar Siggi Dúlla sendi þér skilaboð. „Nei, alls ekki. Mér fannst ég eiga það skilið að vera í þessum hóp og fannst þetta val rökrétt."

Maður vill vera í A-landsliðinu
Atli á að baki fimm U21 leiki og hefur verið í stóru hlutverki í undankeppni liðsins fyrir EM 2023. U21 landsliðið spilar á sama tíma, er hausinn að rokka á milli þess að vilja vera með U21 eða A-landsliðinu?

„Ég er þannig að ég tek því verkefni sem ég fæ og geri mitt allra besta hverju sinni. Verkefnið í U21 er mjög skemmtilegt og krefjandi verkefni en það er alltaf auka og alltaf stærra að vera valinn í A-landsliðið - þó að þetta séu „bara" æfingaleikir. Þetta er alvöru hópur hjá A-landsliðinu og eftir að hafa kynnst æfingaleikjaumhverfinu í janúar þá vill maður vera í A-landsliðinu. Það er mikill heiður að vera valinn og viðurkenning fyrir mig og það sem ég hef lagt á mig síðustu ár. Ég lít á þetta sem uppskeru."

„Til þess að svara spurningunni þá vill maður auðvitað getað hjálpað U21 landsliðinu en þetta er bæði skemmtilegt."


Ætlar ekki að pæla í hvað gerist og ofhugsa hlutina
Ari Freyr Skúlason er hættur en Hörður Björgvin Magnússon er kominn til baka eftir meiðsli. Hvernig horfir vinstri bakvarðarstaðan í landsliðinu við þér?

„Það er undir mér komið hvernig ég spila og hvernig ég stend mig. Ég sé alveg möguleika á því að ég geti vonandi hjálpað landsliðinu og verið lengi í landsliðinu. Fótbolti breytist ótrúlega fljótt, það getur komið einhver ungur og efnilegur inn eða aðrir spilað vel og komist lengra. Eins og er núna þá er ég bara að hugsa um þetta verkfefni og ætla bara að reyna stimpla mig eins vel inn hjá Arnari og Jóa og ég get. Ég sé svo bara hvað gerist, ég ætla ekki að fara pæla meira í hvað gerist seinna eða ofhugsa hversu vel ég þarf að spila," sagði Atli.

Hann ræddi einnig um félagaskiptin til SönderjyskE og fallbaráttuna með félaginu. Sá hluti viðtalsins verður birtur seinna í dag.
Athugasemdir
banner
banner
banner