„Með fullri virðingu þá er það ekki stórt fyrir Manchester United að vinna Evrópudeildina. Þetta er félag sem þarf að stefna að því að vinna ensku úrvalsdeildina og Meistaradeildina. Eins og staðan er núna erum við mjög langt frá því," segir Rúben Amorim, stjóri Manchester United.
Manchester United hefur átt mjög erfitt tímabil en getur hreinlega bjargað því í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í kvöld, gegn Tottenham. Sigurliðið fær sæti í Meistaradeildinni en liðin sitja í 16. og 17. sæti ensku deildarinnar.
Manchester United hefur átt mjög erfitt tímabil en getur hreinlega bjargað því í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í kvöld, gegn Tottenham. Sigurliðið fær sæti í Meistaradeildinni en liðin sitja í 16. og 17. sæti ensku deildarinnar.
„Þessi leikur myndi að mínu mati ekki bjarga tímabilinu því ég tel að það hafi verið vonbrigði. Við höfum verið of ósannfærandi og tapað of mörgum leikjum. En fótbolti snýst um minningar, sigurminningar, og við eigum tækifæri á að vinna titil," segir Harry Maguire, varnarmaður Manchester United.
„Við erum ekki tilbúnir að vera samkeppnishæfir fyrir toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar eða í Meistaradeildinni. En við verðum að vinna, gefa eitthvað til stuðningsmannanna og undirbúa okkur fyrir framtíðina. Sigur myndi ekki leysa öll okkar vandamál en hann myndi hjálpa," segir Amorim.
Get ekki útskýrt þessa stöðu
Talið er að staða Amorim sé örugg sem stjóri Manchester United sama hvernig fer í kvöld. Stjórn félagsins ætlar að halda áfram á hans vegferð inn í næsta tímabil og hann er vinsæll meðal stuðningsmanna. Amorim viðurkennir sjálfur að þetta sé sérstök staða.
„Ég veit að þetta er skrítin staða því Manchester United hefur haft stjóra sem hafa tapað leikjum og þeir verið reknir. Það er erfitt að útskýra þetta. Fólk sér hvað við erum að reyna að gera og sér að ég hugsa meira um félagið en sjálfan mig. Stjórnin veit að við höfum mörg vandamál Ég held áfram að reyna að sanna mig fyrir stuðningsmönnum og stjórninni en ég get ekki útskýrt þessa stöðu," segir Amorim.
Athugasemdir