Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   mán 21. júní 2021 14:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Logi Ólafs: Vonandi hringir enginn
Maður getur ekki annað en lagt sig flatan
Logi yfirgaf FH í dag
Logi yfirgaf FH í dag
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eitt stig í síðustu fimm leikjum
Eitt stig í síðustu fimm leikjum
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Davíð Þór Viðarsson
Davíð Þór Viðarsson
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Logi og Eiður tóku saman við liðinu í fyrra.
Logi og Eiður tóku saman við liðinu í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Logi Ólafsson var í dag látinn fara sem þjálfari FH. Logi tók við FH um mitt síðasta sumar ásamt Eiði Smára Guðjohnsen. Logi hélt svo áfram með liðið þegar Eiður var ráðinn aðstoðarþjálfari landsliðsins og var Logi með Davíð Þór Viðarsson með sér sem aðstoðarþjálfara þetta árið.

FH hafði gengið mjög illa í síðustu fimm leikjum og aðeins náð í eitt stig af fimmtán mögulegum. Síðasti naglinn í kistuna var 4-0 stórtap gegn Breiðabliki í Kópavogi í gær.

Tíðkast að skipta um þjálfara þegar árangur næst ekki
Fréttaritari heyrði í Loga í dag og spurði hann hvort að tíðindin í morgun hafi komið sér á óvart.

„Það þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart eftir að gengið hafði verið eins og það var í undanförnum fimm leikjum, að eitthvað myndi gerast. Þetta kom mér því ekki þannig í opna skjöldu," sagði Logi við Fótbolta.net.

Geturu alveg skilið ákvörðun FH?

„Já, ég get alveg skilið ákvörðunina og það hefur tíðkast í gegnum tíðina að þegar árangur næst ekki að skipt sé um þjálfara. Ég tek fulla ábyrgð á því sem ég hef verið að gera með liðinu og þykir afskaplega leiðinlegt að liðinu skuli ekki hafa gengið betur. Menn geta sjálfir velt fyrir sér ýmsum öðrum þáttum í þessu þegar kemur að þjálfun liða."

„Ég axla bara þessa ábyrgð með þessum hætti, ég átti fund með formanninum í morgun og við ákváðum þetta. Maður getur ekki annað en lagt sig flatan gagnvart svona frammistöðu eins og liðið hefur verið að sýna. Það er vonandi að liðið nái sér á strik, ég er sannfærður um að liðið mun á einhverjum tímapunkti rísa upp og vinna fullt af leikjum. Þetta er það gott lið en okkur hefur ekki vegnað vel að undanförnu."


Rót á þjálfarateyminu og lítil breidd
Logi hélt áfram:

„Það eru ýmis þreytumerki og andleysi sem birtist yfirleitt hjá mönnum sem hafa lítið sjálfstraust. Þannig er það með okkur, því miður. Breiddin er ekki mikil í hópnum og gefst ekki mikill tími til að hvíla menn, skipta út og svo framvegis. Mér finnst þetta bara fyrst og fremst leiðinlegt. Þetta er mitt félag og ég er þakklátur fyrir að hafa komið að þessu á undanförnum tveimur tímabilum en hefði að sjálfsögðu viljað enda þetta með öðrum hætti."

„Ég hafði lýst því yfir og reyndar logið því oft að knattspyrnuþjóðinni að ég væri hættur. En þegar þetta kom upp fannst mér þetta mjög spennandi verkefni, menn vita svo atburðarásina í þessu. Við Eiður komum og ég verð eitthvað til hliðar, svo fer Eiður og ég byrja með Davíð, með hann við hliðina á mér. Það hefur verið smá rót á þessu og vonandi nær FH að finna einhverjar góðar lausnir á þessu. Ég óska Ólafi Jóhannessyni til hamingju með starfið og óska honum hins besta, félagið á minn stuðning."


Tilhneiging til að stilla alltaf upp sterkasta liðinu
Þú talar um þreytumerki, lítill tími til að hvíla menn. Það hefur ekki komið upp sú hugmynd að prófa unga og efnilega leikmenn félagsins með því að láta þá spila í stað eldri og reyndari leikmanna?

„Jú, vissulega er það eitt af því sem ég hefði eflaust getað gert meira af. Maður hefur bara þá tilhneigingu til þess að vilja stilla upp sínu allra sterkasta liði."

„Það gildir jafnt fyrir FH og önnur lið að það voru pásur í þessu og við áttum erfitt með leiki þegar við fengum 48 klukkustundir milli leikja. Það hafði kannski bæði með breiddina að gera og svo aldurssamsetningu á liðinu. Menn þurfa kannski lengri tíma til að jafna sig en ég ætla ekki að fara væla út af einhverjum hlutum."

„Það er staðreynd að liðinu gekk illa undir minni stjórn og það hefur verið viðtekin venja að þjálfarinn er látinn fara þegar illa gengur."


Davíð Þór framtíðarmaður félagsins
Finnst þér skrítið að Davíð Þór hafi ekki verið látinn fara líka?

„Nei, það finnst mér ekki. Hann er framtíðarmaður félagsins, er efnilegur þjálfari og það er kannski of mikið í einu að henda öllu í burtu."

Vonandi hringir enginn
Ertu kominn aftur á þann stað að vera hættur þjálfun?

„Já, ég held ég geti alveg örugglega sagt að ég sé það. Vonandi hringir enginn," sagði Logi léttur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner