Margir hafa klórað sér í hausnum eftir ummæli sem Enzo Maresca, stjóri Chelsea, lét falla á blaðamannafundi eftir sigur á Everton um síðustu helgi. Maresca var augljóslega mjög pirraður og sagði að síðustu tveir sólarhringar fyrir leikinn hefðu verið þeir erfiðustu í starfinu.
Maresca sagði að hann væri ekki að fá nægilegan stuðning í kringum sig, án þess að vilja segja um hvaða aðila hann væri að ræða. Hann neitaði svo að fara frekar út í ummælin þegar hann ræddi við blaðamenn í vikunni.
„Ég hrósa leikmönnum, þetta hefur verið flókin vika en þeir eru að gera svo vel. Síðan ég tók við þessu starfi hafa síðustu 48 tímar verið þeir verstu því það eru svo margir sem eru ekki að styðja okkur," sagði Maresca.
Það var augljóst að Maresca ætlaði að nota þetta viðtal til að senda skilaboð, en til hverra? Það er ekki ljóst. Mögulega eru það Todd Boehly og félagar, eigendur Chelsea.
Rætt var um það í Enski boltinn hlaðvarpinu hvort að Maresca muni bara hætta á næstunni.
„Hakan færi ekkert í gólfið eftir þennan blaðamannafund, án gríns," sagði Kári Snorrason sem er stuðningsmaður Chelsea.
„Þetta er svo mikil steik af klúbbi. Maður er undirbúinn fyrir allt. Ég held að hann verði ekki rekinn úr þessu."
Maresca var í gær orðaður við Manchester City en hann er ofarlega á lista þar ef Pep Guardiola hættir eftir tímabilið, sem er talið nokkuð líklegt.
Athugasemdir






