Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 22. desember 2022 16:38
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Þegar þú ert stoðsendingahæstur í deildinni þá hafa lið áhuga á þér"
FH bauð í Adam Ægi en hann er í plönunum hjá Víkingi
Adam Ægir Pálsson.
Adam Ægir Pálsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net þá gerði FH tilboð í Adam Ægi Pálsson, leikmann Víkings, fyrir stuttu síðan. Adam Ægir er þó í plönum Víkinga fyrir næstu leiktíð.

„Ég ætla ekki að staðfesta neitt," sagði Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi, er hann var spurður út í þessar sögur. Adam er að hluta til uppalinn hjá FH.

„Hann er eftirsóttur leikmaður. Það er bara svoleiðis. Hann skorar eða leggur upp í nánast hverjum einasta leik. Það er skiljanlegt að félög vilji fá þannig leikmann. Adam er klárlega inn í plönunum hjá okkur. Hann stóð sig frábærlega á láni hjá Keflavík."

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, vill helst ekki missa neina leikmenn úr sínum hóp.

„Ég á ekki von á öðru en að við bætum frekar í frekar en hitt," segir Arnar en þegar hann var spurður út í Adam sérstaklega þá sagði hann:

„Þegar þú ert stoðsendingahæstur í deildinni þá hafa lið áhuga á þér. En hann hefur staðið sig mjög vel frá því hann kom til baka úr láni. Ég vil hafa sem flesta hjá mér en ef einhverjir leikmenn vilja fara og þess háttar þá er þetta bara sama hugsun og hjá Manchester City: 'Þá bara takk kærlega, við erum ekki að væla yfir því... takk fyrir veruna og ég óska þér góðs gengis annars staðar'."

Adam Ægir var mjög góður á láni hjá Keflavík á síðustu leiktíð og endaði sem stoðsendingahæstur í Bestu deildinni. „Ég var mjög ánægður hvernig honum tókst til. Ég vil að leikmenn sýni að þeir séu virkilega góðir þegar þeir fara á láni. Hann gerði það. Hann var einn af betri kantmönnum deildarinnar seinni hlutann. Við fengum hann til baka með blússandi sjálfstraust. Hann er á góðum stað eins og staðan er í dag," sagði Arnar en það verður fróðlegt að sjá hvað Adam Ægir gerir á næstu leiktíð.
Athugasemdir
banner
banner