Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   lau 25. apríl 2020 12:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Kvikmyndir, sjónvarpsþættir og heimildarefni um fótbolta
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Leikarahópurinn úr Heimebane.
Leikarahópurinn úr Heimebane.
Mynd: Getty Images
Úr Heimavelli. Ane Dahl Torp og John Carew, sem er fyrrum sóknarmaður í ensku úrvalsdeildinni.
Úr Heimavelli. Ane Dahl Torp og John Carew, sem er fyrrum sóknarmaður í ensku úrvalsdeildinni.
Mynd: NRK
Kuno Becker, aðalleikarinn úr Goal.
Kuno Becker, aðalleikarinn úr Goal.
Mynd: Getty Images
Við gerð Bend it Like Beckham.
Við gerð Bend it Like Beckham.
Mynd: Getty Images
Parminder Nagra og Keira Knightley fara með aðalhlutverk í Bend it like Beckham.
Parminder Nagra og Keira Knightley fara með aðalhlutverk í Bend it like Beckham.
Mynd: Bend it like Beckham
Brian Clough.
Brian Clough.
Mynd: Getty Images
Heimildarmyndin um Sir Bobby Robson er mjög áhugaverð.
Heimildarmyndin um Sir Bobby Robson er mjög áhugaverð.
Mynd: Getty Images
Sunderland Til' I Die hefur notið mikilla vinsælda.
Sunderland Til' I Die hefur notið mikilla vinsælda.
Mynd: Getty Images
Dramatíkin er mikil í þáttunum um Sunderland.
Dramatíkin er mikil í þáttunum um Sunderland.
Mynd: Getty Images
Guardiola kemur mikið við sögu í All or Nothing: Manchester City.
Guardiola kemur mikið við sögu í All or Nothing: Manchester City.
Mynd: Getty Images
Frakkland varð Heimsmeistari árið 2018, en liðið vann einnig HM fyrir 20 árum.
Frakkland varð Heimsmeistari árið 2018, en liðið vann einnig HM fyrir 20 árum.
Mynd: Getty Images
KF Nörd eru skemmtilegir þættir.
KF Nörd eru skemmtilegir þættir.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Stelpurnar okkar fjallar um leið kvennalandsliðsins á EM 2009.
Stelpurnar okkar fjallar um leið kvennalandsliðsins á EM 2009.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jökullinn logar er heimildarmynd um leið íslenska karlalandsliðsins á EM 2016.
Jökullinn logar er heimildarmynd um leið íslenska karlalandsliðsins á EM 2016.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Enn er fátt um íþróttadagskrá vegna kórónuveirunnar. Það mun vonandi breytast fljótlega, en auðvitað er það heilsa fólk sem á að vera í fyrirrúmi akkúrat núna.

Til þess að stytta stundir á þessum óvissutímum er fátt skemmtilegra en að horfa á góða bíómynd, sjónvarpsþætti eða jú, heimildarefni. Það er ekkert leiðinlegra ef það efni tengist fótbolta á einhvern hátt.

Hér kemur listi yfir sjónvarpsefni sem tengist fótbolta sem undirritaður mælir hiklaust með.

Heimavöllur
Þegar kemur að leiknu sjónvarpsefni eru þættirnir um fótboltaþjálfarann Helenu Mikkelsen yfirburðar. Þættirnir fjalla um Helenu sem tekur við karlaliði Varg í norsku úrvalsdeildinni og verða alls konar áskoranir á vegi hennar. Heimavöllur er oftar en ekki gæsahúðarefni.

Búið er að gera tvær þáttaraðir og bregður Lars Lagerback, fyrrum landsliðsþjálfara Íslands, fyrir í annarri þáttaröðinni. Lagerback er í dag landsliðsþjálfari Noregs.

Þættirnir hafa verið sýndir á NRK í Noregi og á RÚV hér á Íslandi. Algjört skylduáhorf fyrir fótboltafíkla sem og aðra.

Goal 1 og 2
Goal er kvikmyndaflokkur sem fjallar um Santiago Muñez, hæfileikaríkan fótboltamann sem kveður fátæktina í Los Angeles og heldur til Englands að elta drauminn. Hann fær samning hjá Newcastle eftir að fyrrum njósnari félagsins tekur eftir honum. Santiago kemst svo í aðalliðið og nær að spila og skora á St. James' Park.

Önnur myndin er líka fínt áhorf. Þar kaupir spænska stórveldið Real Madrid Santiago og vin hans Gavin Harris frá Newcastle. Í mynd númer tvö koma við sögu stórstjörnur eins og Iker Casillas, Sergio Ramos, Roberto Carlos og David Beckham.

Þriðja myndin var líka gerð, en það er því miður ekki hægt að mæla með henni.

Bend it like Beckham
Bresk kvikmynd og leikur stórleikkona Keira Knightley meðal annars í henni. Mynd sem fjallar um Jess Bhamra sem langar að verða fótboltakona, en foreldrar hennar banna henni að spila leikinn fagra því hún er stelpa. Hún lætur það hins vegar ekki stöðva sig og eltir drauminn.

Myndin sló rækilega í gegn og hefur vonandi veitt stelpum og strákum í fótbolta innblástur að láta ekki mótlætið stöðva sig.

Hérna má lesa grein um sögu myndarinnar á vef The Athletic.

The Damned United
Önnur leikin bíómynd, en þessi mynd fjallar um dagana 44 sem Brian Clough stýrði Leeds árið 1974. Michael Sheen fær það verðuga verkefni að leika Clough í myndinni. Clough var óvinsæll hjá Leeds áður en hann tók við stjórn félagsins og var hann rekinn eftir einn og hálfan mánuð.

Myndin hlaut lof gagnrýnenda, en það voru ekki allir sáttir með hana. Myndin er byggð á bók, en aðstandendur Clough heitins telja margt sem kemur fram í bókinni vera ósatt og mættu þau því ekki á myndina þegar hún var frumsýnd.

Bobby Robson: More Than a Manager
Satt best að segja þá vissi ég lítið um Sir Bobby Robson fyrir áhorf á þessari heimildarmynd, en saga hans er virkilega áhugaverð; frá því að þjálfa Ipswich í það að stýra Barcelona. Líf knattspyrnustjórans er ekki alltaf dans á rósum.

Sir Bobby var greindur með krabbamein og ráðlagt að hætta í fótbolta, en níu mánuðum síðar gerðist hann stjóri Barcelona. Þar fékk hann kannski ekki sanngjörnustu meðferðina. Eins og mögulega síðar hjá Newcastle. Sir Bobby Robson lést árið 2009, þá 76 ára gamall.

Hægt er að horfa á þessa heimildarmynd á Netflix.

Sunderland Til' I Die
Þann 1. apríl síðastliðinn kom út önnur þáttaröðin af hinum vinsælu þáttum Sunderland 'Til I Die inn á streymisveituna Netflix. Í þáttunum er skyggnst á bak við tjöldin hjá enska knattspyrnufélaginu Sunderland AFC og sýnt er frá hæðum og lægðum félagsins - þó mikið meira sé um lægðir.

Fyrsta þáttaröðin sló í gegn á Íslandi og víðar en hún fjallaði um um baráttu Sunderland í Championship-deildinni. Eftir að hafa fallið úr ensku úrvalsdeildinni þá féll Sunderland beinustu leið úr Championship-deildinni í C-deildina. Í nýju þáttaröðinni er fjallað um síðasta tímabil hjá Sunderland í ensku C-deildinni og óhætt er að segja að þar hafi verið mikil dramatík eins og fyrri daginn.

Þótt að um raunveruleikasjónvarp sé að ræða þá virðist handritið oft á tíðum vera bilaðara en skáldskapur.

Sjá einnig:
Sunderland Til' I Die: Vilja einhvern tímann hafa gleðina í fyrirrúmi

All or Nothing: Manchester City
Ekki eins mikil dramatík og ekki eins mikill iðnaður í þessu og hjá Sunderland, en þetta er samt skemmtilegt sjónvarpsefni.

Þarna er skyggnst á bak við tjöldin hjá Manchester City er liðið varð Englandsmeistari 2017/18 tímabilið. Í þessum þáttum fá áhorfendur að sjá inn í búningsklefa City þegar Pep Guardiola heldur þrumuræður sínar.

Hægt er að horfa á þessa seríu á Amazon Prime, en Amazon er að vinna í annarri þáttaröð af svipaðari gerð um Tottenham. Það ætti að vera mjög áhugavert sjónvarpsefni.

Les Blues
Falinn fjársjóður. Heimildarmynd sem er virkilega góð, en umtalið hefur ekki verið neitt rosalega mikið. Hún fjallar um sögu franska landsliðsins frá 1996 til 2006. Frakkar urðu Heimsmeistarar og Evrópumeistarar á þessum árum, en svo fór allt til fjandans. Áður en allt varð svo aftur gott á HM 2018.

Í þessari heimildarmynd er einnig sagt frá sögu franska landsliðsins og það hvernig liðið var notað sem pólítískt verkfæri í heimalandinu.

Myndin var eitt sinn fáanleg á Netflix, en er það ekki lengur.

KF Nörd
Íslenskur sjónvarpsþáttur sem kom út árið 2006. Þáttur um 16 aðila, svokallað nörda, sem vissu lítið sem ekkert um fótbolta og gátu lítið sem ekkert í íþróttinni. Í þáttunum reyna Logi Ólafsson og Ásmundur Haraldsson að gera þá að fótboltamönnum.

Í lokaþættinum kepptu nördarnir svo við Íslandsmeistara FH í skemmtilegum leik á Laugardalsvelli.

Hægt er að horfa á þessa frábæru þætti aftur í heild sinni á Stöð 2 Maraþon.

Sjá einnig:
KF Nörd sigurvegarar í tapleik gegn meisturum FH

Jökullinn logar og Stelpurnar okkar
Heimildarmyndir sem gerðar voru afrek landsliða okkar að komast inn á stórmót. Stelpurnar okkar kom út árið 2009 í kjölfar þess að íslenska kvennalandsliðið spilaði á EM 2009. Myndin er í leikstjórn Þóru Tómasdóttur og framleidd af Hrafnhildi Gunnarsdóttur. Í myndinni kynnumst við stelpunum sem mynda liðið, draumum þeirra og metnaði og fótboltaheiminum sem þær lifa og hrærast í.

Jökullinn logar fjallar um leið íslenska karlalandsliðsins á Evrópumótið 2016 þegar Ísland varð fámennasta þjóð sögunnar til að komast í lokakeppni stórmóts karla. Sævar Guðmundsson sér um leikstjórn og Sölvi Tryggvason gerði handritið.

Það er hægt að bóka gæsahúð við áhorf á þessum tveimur heimildarmyndum.

Hvaða fótboltatengdu kvikmyndir, sjónvarpsþættir, heimildarmyndir- og seríur eru í uppáhaldi hjá þér?


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner