Tottenham reynir við Savinho og Paz - Ensk stórlið vilja Rodrygo - Donnarumma með munnlegt samkomulag við City
   mán 25. ágúst 2025 14:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Ég hef aldrei hlegið jafnmikið yfir fótboltaleik"
Breiðablik fagnar marki.
Breiðablik fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Blikar fara með 2-1 forystu til San Marínó fyrir seinni leikinn
Blikar fara með 2-1 forystu til San Marínó fyrir seinni leikinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Blikar spila seinni leikinn í San Marínó á fimmtudaginn.
Blikar spila seinni leikinn í San Marínó á fimmtudaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik getur komist í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar seinna í þessari viku er liðið mætir Virtus frá San Marínó á fimmtudaginn.

Blikar unnu fyrri leikinn 2-1, hörkuðu þar sigur, en rætt var um það í útvarpsþættinum Fótbolti.net að það yrði skandall ef Breiðablik klárar ekki þetta lið.

„Svo við tölum bara hreint út þá getur þetta Virtus lið ekki neitt," sagði Elvar Geir Magnússon í þættinum.

Fyrir nokkrum árum bættist Sambandsdeildina í mixtúruna og þá urðu möguleikar íslensku liðanna enn meiri. Breiðablik hefur núna tækifæri til þess að komast í deildarkeppnina og það verður þá í þriðja sinn í röð sem íslensku liði tekst það.

„Þú þarft varla að vinna gott lið á leiðinni," sagði Valur Gunnarsson í þættinum. „En við fögnum þessu. Þetta er búið til að dæla pening inn í minni félög og minni deildir. Við tökum þessu fagnandi," sagði Tómas Þór Þórðarson.

„Þetta Virtus lið... ég var að horfa á þetta heima. Ég hef aldrei hlegið jafnmikið yfir fótboltaleik. Leikmaður númer 45 hjá Virtus kann ekki að hlaupa. Ég hugsaði að þetta væri eins og að horfa á Boladeildina út á Leiknisvelli. Svo byrjar þetta og Blikar fá færi, en markvörðurinn ver frábærlega. Ég hugsaði að Blikarnir tækju þetta 5-0 eða 6-0. Svo kemst þetta lið frá San Marínó yfir," sagði Valur en hann átti ekki orð yfir því að þetta lið hafi komist yfir gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli.

„Allan tímann var ég með í hausnum að þetta færi þá 5-1. Heyrðu, þeir spila þá bara sama leik þarna og maður hefur séð í sumar; á þriðja þriðjungi skora þeir bara ekki. Mörkin eru þannig að boltinn fer af varnarmanni og inn og víti sem á ekki að vera vítaspyrna. Þetta er á móti liði sem myndi ekki vinna 2. deildina," sagði Valur jafnframt.

„Það er bara skandall ef þeir klára þetta ekki," sagði Elvar Geir. „Ég heyrði sögusagnir að fyrirliðinn hjá þessu Virtus liði hafi ekki verið með í þessum leik þar sem hann er í fríi á Benidorm. Miðað við það sem maður sá af þessu liði, þá hugsaði maður að það væri örugglega rétt."

Virtus vann þó lið frá Moldóvu til að komast á þennan stað sem er býsna vel gert en Blikar eiga að vinna þetta lið og það sannfærandi.

„Við höfum heyrt frá stuðningsmönnum Breiðabliks sem fóru pirraðir af velli. Það er fullt af áhyggjuefnum," sagði Elvar. „Vinur minn er harður Bliki. Ég var að spjalla við hann og ég sagði við hann að menn hefðu verið að fagna eins og þeir væru að verða Íslandsmeistarar. Hann sagðist ekki hafa séð það þar sem hann drullaði sér út brjálaður. Hann var alveg þar," sagði Valur.

„Breiðablik átti aldrei að bjóða upp á að það sé alvöru spenna fyrri seinni leiknum," sagði Elvar.

„Það væri mesti skandall sögunnar í Evrópukeppni ef þeir detta þarna út," sagði Valur.

Hægt er að hlusta á alla umræðuna í spilaranum hér fyrir neðan.


Útvarpsþátturinn - Himnaríki Vestra og helvíti Vals
Athugasemdir
banner