Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
banner
   þri 25. október 2022 14:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ákvað fyrir tímabilið að þetta yrði það síðasta - Íslandsmeistaratitillinn sætasta stundin
Bikarinn á loft
Bikarinn á loft
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Með fyrirliðabandið
Með fyrirliðabandið
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pálmi Rafn Pálmason lék í gær sinn síðasta leik á ferlinum þegar KR og Víkingur mættust í næstsíðustu umferð Bestu deildarinnar. Pálmi fékk gult spjald í leiknum og verður í banni í lokaumferðinni.

Pálmi framlengdi samning sinn um eitt ár eftir síðasta tímabil og er sá samningur að renna út. Pálmi ræddi við Fótbolta.net eftir leikinn í gær.

„Ég kom inn í tímabilið með það leiðarljósi að þetta yrði mitt síðasta tímabil. Ég hef haldið mig við þá ákvörðun, þetta er komið gott og nú fer fjölskyldan í fyrsta sætið. Það er kominn til þess," sagði Pálmi.

Hvernig metur hann þetta síðasta tímabil á ferlinum?

„Þokkalega. Ég tábrotna í ágúst og það er ekkert auðvelt að koma sér aftur í gang þegar maður stoppar í smá tíma. Svo er bara búið að sparka manni úr liðinu sem er bara frábært, Aron Þórður (Albertsson) er búinn að koma hrikalega öflugur inn, búinn að svara mörgum efasemdarröddum finnst mér. Ég hef ekkert komist aftur inn út af honum sem er bara frábært. Vonandi heldur hann þessu áfram."

Pálmi er í starfi hjá KR sem íþróttastjóri. Nú þegar ferilinn er á enda, kemur til greina að fara í þjálfun?

„Það gæti alveg verið að ég fari í meistaraflokksþjálfun seinna meir. Ég er með mína stráka í 4. flokknum í KR og hef mjög gaman af því. Ég held því áfram núna og svo verður framtíðin bara að koma í ljós. Ég loka aldrei á neitt og við bara sjáum til."

Íslandsmeistaratitilinn árið 2019, er það sætasta stundin með KR?

„Klárt mál, við áttum frábært tímabil þá. Það var ógeðslega gaman að vinna titilinn þá, það var frábær hópur og þessi hópur í ár er alveg yndislegur. Að vinna titil með KR er ótrúlega gaman," sagði Pálmi.

Pálmi varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari, fyrst árið 2007 með Val og svo 2019 með KR. Árið 2008 varð hann norskur meistari með Stabæk. Hann lék alls í sjö ár í Noregi, fyrst með Stabæk og svo Lilleström. Hann kom í KR fyrir tímabilið 2015 og hefur verið þar síðan. Áður en hann fór í Val árið 2006 lék hann með uppeldisfélaginu Völsungi og svo KA á Akureyri.

Pálmi lék á ferlinum 242 leiki í efstu deild á Íslandi og skoraði í þeim 54 mörk.
Pálmi Rafn ræddi við dómarann að leikslokum: Ógeðslega svekktur
Athugasemdir
banner
banner