Skoska stórveldið Rangers er búið að krækja í öflugan kantmann til að styrkja hópinn sinn fyrir seinni hluta tímabils.
Sá er danskur landsliðsmaður og heitir Andreas Skov Olsen. Hann kemur á lánssamningi frá Wolfsburg sem gildir út tímabilið.
Skov Olsen er 26 ára kantmaður með 40 landsleiki að baki. Hann hóf ferilinn hjá Nordsjælland en lék einnig fyrir Bologna og Club Brugge áður en hann var keyptur til Wolfsburg fyrir tæpar 15 milljónir evra fyrir ári síðan.
Hann fann aldrei taktinn í þýska boltanum og skoraði í heildina 3 mörk í 23 leikjum með Wolfsburg, auk þess að gefa eina stoðsendingu.
Ljóst er að Skov Olsen gæti reynst algjör lykilmaður í liði Rangers en hann var sérstaklega öflugur á dvöl sinni hjá Club Brugge í Belgíu þar sem hann raðaði inn mörkum og stoðsendingum áður en hann var keyptur yfir í þýska boltann.
Rangers er í toppbaráttu skoska boltans með 44 stig eftir 22 umferðir. Liðið hefur verið á góðri siglingu eftir ráðningu á Danny Röhl sem þjálfara.
???? pic.twitter.com/GHUOiGTRB6
— Rangers Football Club (@RangersFC) January 16, 2026
Athugasemdir


