Marokkó 0 - 1 Senegal
0-1 Pape Gueye ('94)
0-1 Pape Gueye ('94)
Marokkó og Senegal áttust við í úrslitaleik Afríkukeppninnar í dag og var staðan markalaus framan af í spennandi slag.
Senegal var sterkara liðið í fyrri hálfleik og fékk tvö bestu færin fyrir leikhlé en tókst ekki að skora.
Í síðari hálfleik voru heimamenn í Marokkó betra liðið en ekki tókst þeim að skora. Þegar komið var í uppbótartíma kom Senegal boltanum í netið en ekki dæmt mark vegna brots í aðdragandanum fyrir nokkuð litlar sakir.
Leikmenn Senegal kvörtuðu en Jean-Jacques Ndala dómari stóð fastur á sínu. Það var svo nokkrum mínútum síðar sem hann dæmdi vítaspyrnu á hinum endanum fyrir afar litlar sakir. Brahim Díaz féll til jarðar innan vítateigs í hornspyrnu og dæmdi Ndala ekkert til að byrja með en var sendur í skjáinn. Þar taldi hann að um brot væri að ræða og dæmdi vítaspyrnu eftir afar langa athugun.
Senegalar misstu stjórnar á skapinu við þessa ákvörðun. Þeir mótmæltu og mótmæltu og þegar þeir áttuðu sig á því að þeir fengu dóminum ekki breytt gengu þeir af velli. Sadio Mané stóð þó eftir og reyndi að sannfæra liðsfélagana um að snúa aftur til vallar.
Senegal hafði verið í búningsklefanum í um tíu mínútur þegar leikmenn sáust koma aftur til baka úr leikmannagöngunum til að klára úrslitaleikinn.
Brahim Díaz steig á vítapunktinn og reyndi Panenka vítaspyrnu en klúðraði. Þetta var síðasta spyrnan í venjulegum leiktíma áður en framlengingin fór af stað.
Senegalar mættu grimmir til leiks í framlenginguna og tóku forystuna snemma þegar Pape Gueye skoraði gullfallegt mark eftir frábæran undirbúning frá Sadio Mané, sem hefur engu gleymt þó að hann hafi tapað smá hraða með hækkandi aldri. Mané vann boltann á eigin vallarhelmingi og komst vel úr mótpressunni áður en hann gaf boltann á Idrissa Gana Gueye sem gerði vel að koma honum beint áfram á nafna sinn Pape.
Marokkó svaraði með því að stanga boltann í slána og fengu heimamenn nokkur tækifæri til að setja boltann í netið en alltaf náðu gestirnir að henda sér fyrir boltann til að bjarga.
Cherif Ndiaye fékk tækifæri til að innsigla sigurinn fyrir Senegal en hann klúðraði á ótrúlegan hátt fyrir opnu marki. Sem betur fer fyrir hann og samlanda hans tókst Marokkó ekki að svara fyrir sig, svo lokatölur urðu 0-1 fyrir Senegal.
Senegal er því Afríkumeistari 2026 og er þetta í annað sinn í sögunni sem þjóðin vinnur keppnina. Fyrsti sigurinn kom í Afríkukeppninni 2021.
18.01.2026 21:21
Brahim Díaz klúðraði með Panenka spyrnu
Athugasemdir



