Camavinga og Bastoni orðaðir við Liverpool - Ruben Neves á óskalista Man Utd - Framtíð Frank í óvissu
banner
   sun 18. janúar 2026 21:48
Ívan Guðjón Baldursson
Ítalía: Malen og Füllkrug á skotskónum
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Tveimur síðustu leikjum dagsins er lokið í ítalska boltanum þar sem AS Roma náði fram hefndum gegn Torino eftir tap gegn þeim í ítalska bikarnum í miðri viku.

Donyell Malen er nýkominn frá Aston Villa og fór hann beint í byrjunarliðið. Hollendingurinn kom boltanum í netið á 23. mínútu en ekki dæmt mark vegna rangstöðu. Þremur mínútum síðar gerði hann löglegt mark eftir mjög góðan undirbúning frá Paulo Dybala.

Roma var sterkara liðið og tvöfaldaði forystuna í síðari hálfleik. Í þetta skiptið var það Dybala sem skoraði eftir sendingu frá Devyne Rensch. Niðurstaðan sanngjarn 0-2 sigur og endurheimtir Roma fjórða sætið með sigrinum, þar sem liðið er með 42 stig eftir 21 umferð - sjö stigum á eftir toppliði Inter. Þetta var þriðji sigur liðsins í röð.

Torino er í neðri hlutanum með 23 stig, sex stigum fyrir ofan fallsvæðið.

AC Milan tók svo á móti fallbaráttuliði Lecce og horfði Þórir Jóhann Helgason á leikinn frá varamannabekknum.

Það var lítið að frétta í markalausum fyrri hálfleik en heimamenn í Mílanó tóku öll völd á vellinum eftir leikhléð. Þeim tókst þó ekki að skora nema eitt mark og þar var Niclas Füllkrug á ferðinni. Hann kom inn af bekknum og skoraði eina mark leiksins þremur mínútum síðar, með skalla eftir fyrirgjöf frá Alexis Saelemaekers.

Füllkrug er nýkominn til Milan eftir misheppnaða dvöl hjá West Ham í ensku úrvalsdeildinni.

Lokatölur 1-0 og er Milan í öðru sæti með 46 stig, þremur stigum á eftir Inter. Lecce er í fallsæti með 17 stig eftir 21 umferð.

Torino 0 - 2 Roma
0-1 Donyell Malen ('26 )
0-2 Paulo Dybala ('72 )

Milan 1 - 0 Lecce
1-0 Niclas Fullkrug ('76 )
Athugasemdir