Kovac orðaður við stjórastól Liverpool - Newcastle vill Gibbs-White - Dewsbury-Hall orðaður við Tottenham
banner
   mið 26. febrúar 2020 21:55
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Meistaradeildin: Hrun hjá Real Madrid gegn Man City
Man City kom til baka á Bernabeu.
Man City kom til baka á Bernabeu.
Mynd: Getty Images
Sergio Ramos fékk rautt spjald og verður ekki með á Etihad.
Sergio Ramos fékk rautt spjald og verður ekki með á Etihad.
Mynd: Getty Images
Ronaldo og félagar eru 1-0 undir gegn Lyon.
Ronaldo og félagar eru 1-0 undir gegn Lyon.
Mynd: Getty Images
Manchester City er í mjög svo fínum málum eftir útileik sinn gegn Real Madrid í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Það var stórleikur á Santiago Bernabeu þar sem að heimamenn, sigursælasta lið í sögu Meistaradeildarinnar, tóku á móti Manchester City, sem er enn í leit að sínum fyrsta Meistaradeildartitli.

Það er spurning hvort að City verði í þessari keppni á næsta tímabili eftir að UEFA dæmdi félagið í tveggja ára bann frá Evrópukeppnum og sektaði það um 30 milljónir evra. City er sakað um að hafa falsað skjöl og brotið fjárhagsreglur evrópska knattspyrnusambandsins, en félagið áfrýjar dómnum.

Bæði lið voru nokkuð varkár í fyrri hálfleik, en það voru gestirnir frá Manchester sem sköpuðu sér betri færi. Gabriel Jesus var hættulegastur City-manna og átti hann tilraun undir lok fyrri hálfleiks sem gestunum tókst að bjarga á línu.

Staðan var markalaus í hálfleik. Eftir stundarfjórðung í seinni hálfleik skoraði Real Madrid fyrsta mark leiksins og var það Isco sem skoraði eftir sendingu Vinicius.

City hafði þó alls ekki sagt sitt síðasta í þessum leik. Á 78. mínútu kom jöfnunarmarkið þegar Gabriel Jesus skoraði er hann skallaði fyrirgjöf Kevin de Bruyne í netið.

Stuttu síðar sýndi Dani Carvajal glórulausan varnarleik er hann fór niður í jörðina og felldi varamanninn Raheem Sterling innan teigs. Kevin de Bruyne fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi fram hjá landa sínum, Thibaut Courtois.

Hrun Real Madrid var fullkomnað á 86. mínútu þegar fyrirliði liðsins, Sergio Ramos, fékk rautt spjald fyrir að brjóta á Jesus sem var að sleppa í gegn. Ekki fyrsta rauða spjaldið sem Ramos fær á ferlinum.

Lokatölur 2-1 fyrir Manchester City í Madríd. Erfitt verkefni bíður Real Madrid á Etihad-vellinum.

Lyon lagði Juventus
Í hinum leik kvöldsins í Meistaradeildinni hafði Lyon betur gegn Ítalíumeisturum Juventus í Frakklandi.

Miðjumaðurinn Lucas Tousart skoraði þar fyrsta og eina mark leiksins þegar rúmur hálftími var liðinn af leiknum. Lyon gerði tilkall til að fá víti í fyrri hálfleiknum er boltinn virtist fara í hendi Juan Cuadrado, en ekkert var dæmt.

Í seinni hálfleiknum tókst Cristiano Ronaldo og félögum í Juventus ekki að jafna og lokatölur 1-0 fyrir Lyon sem fer til Ítalíu með forystu og án þess að fá á sig útivallarmark. Flott úrslit hjá liði sem er í sjöunda sæti frönsku úrvalsdeildarinnar.

Real Madrid 1 - 2 Manchester City
1-0 Alarcon Isco ('60 )
1-1 Gabriel Jesus ('78 )
1-2 Kevin de Bruyne ('83 , víti)
Rautt spjald:Sergio Ramos, Real Madrid ('86)

Lyon 1 - 0 Juventus
1-0 Lucas Tousart ('31 )
Athugasemdir
banner
banner
banner