Kovac orðaður við stjórastól Liverpool - Newcastle vill Gibbs-White - Dewsbury-Hall orðaður við Tottenham
   fös 26. febrúar 2021 12:39
Elvar Geir Magnússon
„Besta niðurstaðan fyrir íslenskan fótbolta næst aldrei á ársþingi KSÍ"
Hörður Snævar Jónsson
Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: KSÍ
Hörður Snævar Jónsson, ritstjóri 433.is, telur að ársþing KSÍ ætti að kjósa um að starfshópur hjá KSÍ ætti að ákveða hvað sé best fyrir íslenskan fótbolta.

Í pistli sem hann skrifar segir hann sína skoðun á þeim tillögum sem liggja fyrir ársþing KSÍ um breytt fyrirkomulag í efstu deild karla.

„Hálfgert einræði þarf til að besta niðurstaðan fyrir fótboltann náist, eiginhagsmunir eins og tillaga Fram ber vott um er ekki gerð til að bæta fótboltann. Miklu frekar ætti ársþingið að kjósa um að það sé í verkahring starfshóps hjá KSÍ að ákveða hvað er best fyrir íslenskan fótbolta. Félög í neðri deildum eiga ekki að hafa neitt um það að segja hvað sé best fyrir bestu knattspyrnumenn landsins," skrifar Hörður í pistli sínum.

Sjálfur telur hann að tíu liða efsta deild með þremur umferðum væri besta leiðin til að bæta íslenskan fótbolta.

„Fleiri betri leikir, meiri spenna og minna um það að lið komi upp í efstu deild og verði sér til skammar með ömurlegri frammistöðu í hverri viku. Næst efsta deild karla, Lengjudeildin myndi svo njóta góðs af þessu og verða enn betri en hún er í dag."

„Engin bæting hefur orðið á íslenskum fótbolta frá því að ársþing KSÍ ákvað að fjölga liðum úr 10 í 12 árið 2008. Af hverju ætti fjölgun úr 12 í 14 að vera lykill að betra lífi fótboltans?"

„Af hverju ætli Króatar sem hafa fjórar milljónir íbúa telji best fyrir sig að hafa 10 liða efstu deild? Króatar ein besta íþróttaþjóð Evrópu telur best að hafa tíu lið til að hafa deildina betri og jafnari, fleiri betri leikir og liðin og leikmennirnir njóta góðs af. Íslendingar á eyju norður í ballarhafi ætla að reyna að sannfæra mig um að 14 liða efsta deild sé besta leiðin í átt að betri árangri, með rétt rúmlega 350 þúsund íbúa. Danir og Skotar sem telja fleiri milljónir eru með tólf liða deildir, svo dæmi sé tekið," skrifar Hörður í pistli sínum en hægt er að lesa hann í heild sinni hérna.

Tillögur að breytingum
Fram - Fjölga í 14 lið í efstu deild. Tvöföld umferð
Fylkir - Fækka í 10 lið og spila þrefalda umferð
ÍA - Halda 12 liðum og spila þrefalda umferð
KSÍ - Halda 12 liðum og bæta við úrslitakeppni. Í úrslitakeppni skal leikin einföld umferð á milli sex efstu liða annars vegar og á milli sex neðstu liða hins vegar
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner