Aron Einar Gunnarsson var í byrjunarliði Al Gharafa og lagði upp sigurmarkið er það vann mikilvægan 1-0 sigur gegn Al Wahda í deildarkeppni Meistaradeildar Asíu í kvöld.
Landsliðsmaðurinn spilaði allan leikinn með Al Gharafa í hitaleik þar sem tvö rauð spjöld fóru á loft.
Mohamed Al Shamsi, leikmaður Al Wahda sá rautt á 52. mínútu og þá klikkaði Yacine Brahimi, liðsfélagi Arons, vítaspyrnu nokkrum mínútum síðar.
Ekki bætti það stöðuna þegar Dame Traore, leikmaður Al Gharafa, sá sitt annað gula spjald tveimur mínútum eftir vítaklúðrið.
Áfram héldu Al Gharafa-menn samt að pressa og þegar nokkrar mínútur voru eftir kom sigurmarkið. Það gerði Senegalinn Seydou Sano eftir stoðsendingu Arons Einars á 87. mínútu.
Frábær úrslit fyrir Al Gharafa sem er í 9. sæti með 6 stig og á enn góðan möguleika á að komast í úrslitakeppnina.
Darwin Nunez, fyrrum leikmaður Liverpool, lagði upp sigurmark Al Hilal fyrir Malcom gegn gömlu lærisveinum Milosar Milojevic í Al Sharjah.
Sigurmarkið kom á 81. mínútu og er Al Hilal á toppnum með 18 stig.
Athugasemdir



