Fanndís Friðriksdóttir, ein besta fótboltakona sem Ísland hefur átt, lagði skóna á hilluna á dögunum. Hún spilaði með Breiðabliki og Val hér á Íslandi en hún lék einnig erlendis í Noregi, Frakklandi og Ástralíu.
Fanndís fór yfir ferilinn í viðtali í Uppbótartímanum á dögunum þar sem hún ræddi meðal annars tíma sinn hjá Marseille í Frakklandi.
Fanndís fór yfir ferilinn í viðtali í Uppbótartímanum á dögunum þar sem hún ræddi meðal annars tíma sinn hjá Marseille í Frakklandi.
Marseille er eitt stærsta félag Frakklands en stuðningsmenn liðsins eru gífurlega ástríðufullir.
„Þetta var geggjuð upplifun en þetta var ógeðslega erfitt," sagði Fanndís um tíma sinn hjá Marseille. Þjálfari hennar var meðal annars mjög sérstakur.
„Það var menningarsjokk hvernig fólk hegðaði sér. Við vorum með þjálfara og hann réði, það voru engar umræður um það. Hann var með alls konar reglur. 'Ég er fullorðin kona og ég ætla að fá að ráða því hvort ég fari í inniskó eða ekki'. Ég átti að fara í inniskó og ég átti að vera svona og ég átti að vera hins vegin. Það voru allir hræddir við hann."
„Ég hef skoðanir og þetta var mjög erfitt. Fólki verður að fá að líða vel þar sem það er. Auðvitað á að vera agi en þetta var algjör þvæla oft á tíðum," sagði Fanndís.
Stuðningsmenn Marseille eru engin lömb að leika við.
„Fólkið er blóðheitt þarna. Ég bjó við hliðina á karlavellinum. Við æfðum hvorki þar né spiluðum. Við fengum samt að fara í myndatöku á vellinum. Ég fór oft á leiki. Það sem ég sá gerast fyrir utan leikvanginn eftir leiki, ég sá blóð og alls konar."
Hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir neðan.
Athugasemdir


