Belgíski sóknarmaðurinn Divock Origi hefur rift samningi sínum við ítalska félagið AC Milan en þetta segir Fabrizio Romano á X.
Þessi þrítugi leikmaður hefur ekki verið hluti af hópnum hjá Milan seinasta eina og hálfa árið.
Hann hefur æft og spilað með varaliði Milan þar sem hann hefur ekki verið samvinnuþýður í að rifta veglegum samningi sínum hjá félaginu.
Romano segir frá því að Milan hafi nú loks náð samkomulagi við Origi um riftun en samningur hans átti að renna út næsta sumar.
Fjölmiðlar ytra tala um Origi sem ein verstu kaup í sögu Milan en hann kom aðeins að þremur mörkum í 36 leikjum með liðinu.
Ekki er ljóst hvert Origi mun fara í janúar en það eru eflaust mörg félög í Evrópu og Mið-Austurlöndunum sem hafa áhuga á að fá þessa 'költ-hetju' Liverpool-manna.
Hann fór mikinn með Liverpool er það vann Meistaradeildina árið 2019. Hann skoraði tvö mörk í undanúrslitum keppninnar og skoraði annað markið í úrslitaleiknum gegn Tottenham. Þá var hann þekktur fyrir að skora dramatísk sigurmörk og vann alls sex titla á tíma sínum hjá Liverpool.
Origi hefur einnig spilað fyrir Lille, Nottingham Forest og Wolfsburg, ásamt því að hafa skorað 3 mörk í 32 landsleikjum með Belgum, þar á meðal annað markið í 3-1 sigri á Íslandi í vináttulandsleik árið 2014.
Athugasemdir


