Þýska félagið Bayer Leverkusen hefur mikinn áhuga á ungum leikmanni enska úrvalsdeildarfélagsins Brighton. Þetta kemur fram á Sky í Þýskalandi.
Harry Howell er 17 ára gamall sóknarsinnaður miðjumaður sem kemur úr akademíu Brighton.
Leverkusen hefur mikinn áhuga á að sækja hann frá Brighton en fjöldi félaga í Þýskalandi sá hann spila með U17 ára landsliði Englands gegn Þjóðverjum á síðustu leiktíð.
Hann, Lennart Karl og Max Dowman voru bestir í þeim leik, en Karl hefur verið að brillera með Bayern og þá hefur Dowman verið að fá tækifæri með Arsenal.
Howell varð yngsti leikmaður í sögu Brighton í ensku úrvalsdeildinni er hann kom inn á gegn Englandsmeisturum Liverpool í maí. Hann hefur ekki enn spilað í deildinni á þessu tímabili, en spilað tvo leiki í deildabikarnum.
Hann lagði upp tvö mörk í fyrsta byrjunarliðsleiknum gegn Oxford og skoraði síðan gegn Barnsley í næstu umferð bikarsins.
Í sumar skrifaði hann undir þriggja ára samning við Brighton og þyrfti Leverkusen því að greiða væna upphæð til þess að fá hann frá enska félaginu.
Athugasemdir

