Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United mun líklega ekki leyfa enska miðjumanninum Kobbie Mainoo að fara frá félaginu á láni í janúar en þetta herma heimildir Times.
Bruno Fernandes, fyrirliði United, meiddist í 2-1 tapinu gegn Aston Villa og verður líklega frá næstu vikur.
Þetta þýðir að United er fáliðað á miðsvæðinu og mun Mainoo ekki fá ósk sían uppfyllta um að fara frá félaginu á láni.
Mainoo, sem er tvítugur, hefur ekki fengið mörg tækifæri til að skína undir stjórn Ruben Amorim á þessari leiktíð og var ekki í hópnum í síðasta leik.
Hann er sagður vilja komast frá United til að eiga möguleika á að komast með Englendingum á HM á næsta ári.
Times segir að meiðsli Fernandes þýða það að vonir Mainoo um að fara séu nánast engar og að United muni ekki samþykkja lánstilboð í leikmanninn.
Mainoo hefur aðeins spilað rúmar 300 mínútur í 12 leikjum á þessari leiktíð, en hrun hans er rannsóknarefni. Hann vann sér sæti í byrjunarliði Englendinga í úrslitakeppni EM á síðasta ári en England fór alla leið í úrslit og þá var hann lykilmaður er United vann enska bikarinn.
Athugasemdir



