Liverpool gæti nýtt sér ákvæði í samningi Semenyo- Ungur miðjumaður á blaði hjá Liverpool og Man Utd - West Ham vill Strand Larsen
   mán 22. desember 2025 18:01
Brynjar Ingi Erluson
Afríkukeppnin: Klaufagangur eftir hornspyrnu og sársaukafullt fagn
Daka rétt eftir að hann skoraði jöfnunarmarkið en nokkrum sekúndum síðar lenti hann á hausnum er hann reyndi einhverskonar handahlaup
Daka rétt eftir að hann skoraði jöfnunarmarkið en nokkrum sekúndum síðar lenti hann á hausnum er hann reyndi einhverskonar handahlaup
Mynd: EPA
Malí 1 - 1 Sambía
1-0 Lassine Sinayoko ('61 )
1-1 Patson Daka ('90 )

Patson Daka bjargaði stigi fyrir Sambíu í 1-1 jafntefli gegn Malí í A-riðli Afríkukeppninnar á Mohamed V-leikvanginum í Casablanca í Marokkó í dag.

Malí fékk gullið tækifæri til að taka forystuna undir lok fyrri hálfleiks er þeir fengu vítaspyrnu. El Bilal Toure, leikmaður Besiktas, steig á punktinn hjá Malí og tók mörg stutt skref áður en hann setti boltann í hægra hornið, en Willard Mwanza var löngu búinn að lesa vítið og varði frábærlega.

Hálftíma fyrir leikslok komust Malí-menn yfir í leiknum með marki eftir hornspyrnu. Þeir settu fáa menn inn í teiginn og virkaði sú taktík frábærlega þó með smá hjálp frá varnarmönnum Sambíu sem voru í mestu vandræðum með að hreinsa boltann frá og endaði hann hjá Lassine Sinayoko sem skoraði úr miðjum teignum.

Malí var aðeins nokkrum mínútum frá því að tryggja sér sigur en Patson Daka var á öðru máli. Hann skoraði með laglegum skalla í uppbótartíma. Hann fagnaði með því að taka handahlaup, sem endaði með ósköpum, en Daka lenti á andlitinu og fann greinilega mikið til eftir það. Vandræðalegt og sársaukafullt hjá Daka en sem betur fer fór ekki verr.

Jafntefli niðurstaðan hjá Malí og Sambíu. Malí mun mæta heimamönnum í Marokko í næstu umferð á meðan Sambía spilar við Kómoroeyjar.


Athugasemdir
banner
banner