þri 26. október 2021 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Við erum himinlifandi að hún velji Ísland"
Icelandair
Amanda Andradóttir.
Amanda Andradóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hin 17 ára gamla Amanda Andradóttir átti flottan leik er hún spilaði sinn annan A-landsleik fyrir Ísland í kvöld. Þetta var hennar fyrsti byrjunarliðsleikur og var hún öflug í öruggum 5-0 sigri á Kýpur.

Amanda, sem leikur með Vålerenga í Noregi, lagði upp fimmta mark Íslands og kom einnig að öðrum mörkum.

Móðir Amöndu er norsk og getur hún enn valið að spila fyrir norska landsliðið, vilji hún gera það. Hún þarf að spila tvo landsleiki til viðbótar til Ísland til þess að það sé staðfest að hún spili fyrir Ísland út ferilinn. Miðað við svör hennar, þá er hún hins vegar ekki að fara að breyta til.

Hún var spurð - í samtali við RÚV - hvort leikirnir yrðu ekki fleiri í bláu treyjunni. „Ég vona það. Það er allavega markmiðið," sagði Amanda.

Markadrottningin Margrét Lára Viðarsdóttir var ein af sérfræðingum RÚV í kvöld. Hún fagnar því að Amanda sé að spila fyrir Íslands hönd.

„Það er alltaf verið að nudda því að henni að hún sé örugglega ekki að fara að velja rauðu treyjuna, þá norsku. Við erum himinlifandi að hún velji Ísland. Hún er frambærilegur leikmaður sem við hlökkum mikið til að fylgjast með í framtíðinni," sagði Margrét.

„Steini og Ási (landsliðsþjálfararnir) eru að taka skynsöm skref með hana. Þeir eru að passa að setja ekki of mikla pressu á hennar herðar, sem er skynsamlegt. Hún á eftir að spila þennan leik í einhver 20 ár í viðbót og við eigum eftir að sjá nóg af henni."

Tók föstu leikatriðin
Amanda tók föstu leikatriðin hjá Íslandi og gerði það vel. Fimmta markið kom eftir hornspyrnu sem hún tók og Alexandra Jóhannsdóttir skallaði inn.

„Amanda er með frábærar spyrnur. Hún kemur þarna inn 17 ára gömul og tekur allar hornspyrnur og aukaspyrnur. Að vera komin með leikmann í þetta hlutverk er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur Íslendinga því við leggjum svo mikið upp úr föstum leikatriðum," sagði Margrét.

„Hún setti nánast allar fyrirgjafir og hornspyrnur á hausinn á einhverjum. Það kom alltaf eitthvað út úr því."

Sjá einnig:
Steini um Amöndu: Framtíðin er hennar
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner