Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 30. apríl 2008 09:00
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 11.sæti
Mynd: Agl.is - Gunnar Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í ellefta sætinu í þessari spá voru Njarðvíkingar sem fengu 75 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Njarðvík.


11.sæti: Njarðvík
Búningar: Græn treyja, grænar buxur, grænir sokkar.
Heimasíða: http://www.umfn.is

Það eru ákveðin kynslóðaskipti í Njarðvík og miklar breytingar orðið á leikmannahópnum frá því á síðasta ári. Það verður fróðlegt að sjá hvernig yngri mönnum tekst til að taka við kyndlinum en margir búast við erfiðu sumri framundan hjá liðinu. Njarðvík er spáð falli úr 1. deild í sumar.

Njarðvík ætlar að treysta á ungu strákana í sumar. Liðið hefur misst ansi sterka leikmenn eins og markvörðinn reynda Albert Sævarsson sem er kominn til Vestmannaeyja, sóknarmanninn stóra Alfreð Elías Jóhannsson sem hélt í Ólafsvík og svo miðjumanninn Eyþór Atla Einarsson sem er kominn í Grafarvoginn.

Í staðinn hefur liðið fengið unga leikmenn sem eru algjörlega óskrifað blað. Ungu leikmennirnir sem eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki njóta þó reynslu manna eins og fyrirliðans Guðna Erlendssonar og að sjálfsögðu Gests Gylfasonar sem er á 39. aldursári en virðist ekkert vera á þeim buxunum að henda skónum upp í hillu.

Þrátt fyrir miklar breytingar á liðinu hefur Njarðvík verið að ná fínum úrslitum á undirbúningstímabilinu og meðal annars reynst úrvalsdeildarliðum erfiður ljár í þúfu. Liðið var með tveimur 1. deildarliðum í riðli í Lengjubikarnum, gerði jafntefli gegn Fjarðabyggð en vann Stjörnuna. Það er því ljóst að liðið verður sýnd veiði en alls ekki gefin.

Njarðvík varð fyrir miklu áfalli þegar Bjarni Sæmundsson fótbrotnaði á undirbúningstímabilinu en ljóst er að liðið verður að spjara sig án hans í sumar. Athyglisvert verður að fylgjast með nokkrum spennandi leikmönnum í Njarðvíkurliðinu og má þar meðal annars nefna markvörðinn Ingvar Jónsson sem er nítján ára og fékk aðeins þrjú mörk á sig í Lengjubikarnum.

Styrkleikar: Njarðvíkingar búa yfir mikilli samheldni og liðsanda sem gæti skilað þeim stigum. Pressan á þeim verður ekki mikil og það ætti að geta hjálpað þeim. Liðið hefur náð að spila góðan varnarleik á undirbúningstímabilinu. Heimavöllurinn hefur skilað þeim meirihluta sinna stiga síðustu ár og ef hann heldur því áfram þurfa Njarðvíkingar ekki að óttast falldrauginn.

Veikleikar: Liðið hefur misst marga sterka leikmenn og óvíst hvort þeir sem í staðinn koma eru tilbúnir þegar í alvöruna er komið. Ef Njarðvíkingar byrja illa gæti verið að liðið næði ekki að jafna sig á því. Áhugaleysi hefur verið mikið í kringum liðið síðustu ár, það virtist þó vera að aukast í fyrra en betur má ef duga skal. Mega illa við meiðslum því breiddin er lítil.

Þjálfari: Helgi Arnarson tók við liðinu af Helga Bogasyni en hann var aðstoðarmaður hans á síðasta tímabili auk þess að þjálfa 2. flokk félagsins. Helgi Arnarson er fertugur og þjálfaði meistaraflokk félagsins 1996-1998 en hann hefur einnig þjálfað Hvöt. Hann hefur verið duglegur að láta liðið spila leiki í vetur.

Lykilmenn: Gestur Gylfason, Guðni Erlendsson, Kristinn Björnsson


Komnir: Jón Haukur Haraldsson frá Sindra, Almar Elí Færseth frá Þór, Einar Helgi Helgason frá Grindavík, Sigurður Karlsson frá Neista Djúpavogi, Vignir Benediktsson frá Breiðablik á láni.

Farnir: Albert Sævarsson í ÍBV, Alfreð Elías Jóhannsson í Víking Ólafsvík, Marteinn Guðjónsson í Reyni Sandgerði, Eyþór Atli Einarsson í Fjölni, Haukur Ólafsson í FH.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. Njarðvík 75 stig
12. KS/Leiftur 33 stig
Athugasemdir
banner
banner