fös 09. maí 2008 07:30
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 2.deild karla: 8. sæti
Mynd: Valgeir Kárason
Mynd: Víkurfréttir - Jón Björn
Mynd: Víkurfréttir - Jón Björn
Mynd: Fótbolti.net - Anton Ari Einarsson
Mynd: Valgeir Kárason
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-9 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í áttunda sætinu var Tindastóll sem fékk 103 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Tindastól.


8. Tindastóll
Búningar: Vínrauð treyja, dökkbláar buxur, dökkbláir sokkar.
Heimasíða: http://www.tindastoll.is

Tindastóll er komið aftur í 2. deild eftir fjarveru síðan 2005 þegar liðið féll á nokkuð óvæntan hátt vildu margir meina. Það hefur tekið liðið smá tíma að ná áttum á nýjan leik og eru núna loksins mættir aftur í þá deild sem liðið á klárlega heima í. Töluverðar breytingar hafa orðið á liðinu frá því í fyrra og á það betur eftir að koma í ljós hvernig þær breytingar munu fara í liðið.

Nokkrir leikmenn sem léku töluvert fyrir liðið á síðustu leiktíð munu ekki leika með liðinu í ár. Albert Sölvi Óskarsson hafði vistaskipti yfir í Leikni og einnig missti liðið Ebbe Nygard sem mun ekki koma aftur til félagsins. Guðmundur Vilbergsson gekk í raðið Hvatar á Blönduósi eflaust við mikinn fögnuð bæjarbúa. Þá munu þeir Haukur Skúlason og Ágúst Ingi Ágústsson ekki leika með liðinu í sumar.

Til að fylla skörð þessara manna hefur liðið fengið nokkra leikmenn sem ættu að geta styrkt liðið að einhverju ráði. Fyrstan ber að nefna Kristján Pál Jónsson sem er uppalinn hjá Leikni. Hann lék töluvert með Leikni í fyrri helmingi leiktíðarinnar í fyrra en ákvað í haust að ganga til liðs við KB, dótturfélags Leiknis sem leikur í 3. deild. Kristján er eldfljótur leikmaður sem ætti að geta nýst liðinu vel í sumar.

Aðalsteinn Arnarsson er kominn heim í sveitina eftir eins árs dvöl hjá Leikni. Aðalsteinn þekkir liðið út og inn og ætti að geta nýst liðinu mjög vel í sumar. Tveir aðrir öflugir leikmenn hafa gengið í raðið liðsins en það eru þeir Kristófer Róbertsson og Saso Durasovic. Kristófer hefur leikið með ÍH og Skallagrím á undanförnum árum í 3. deildinni en hann var sérstaklega drjúgur í markaskoruninni með ÍH á sínum tíma. Saso þekkir Norðurlandið betur en flestir eflaust þar sem hann hefur hringsólað norðan heiða á undanförnum árum. Saso lék fyrst með KS þegar hann kom hingað til lands og færði sig svo um set til Eyjafjarðar þar sem hann lék með Dalvík. Núna hefur Saso ákveðið að söðla um og prófa Skagafjörðinn og ætti það að vera mikill fengur fyrir lið Tindastóls enda Saso gífurlega reyndur leikmaður.

Það er ljóst að það mun mæða mikið á lykilmönnum liðsins þeim Bjarka Má Árnasyni, Gísla Eyland Sveinssyni og Halldóri Jóni Sigurðssyni. Bjarki Már og Gísli Eyland voru í liði ársins á Fótbolta.net árið 2005 þegar liðið féll í 3. deild sem segir ýmislegt um þá félaga. Þessir menn þurfa að haldast heilir og leika af eðlilegri getu ætli liðið sér eitthvað ofan en spáin segir til um. Mannskapurinn er til staðar en liðið má illa við skakkaföllum. Einnig verður gaman að sjá hvað hinn gamalreyndi þjálfari liðsins gerir en Róbert Haraldsson gæti verið ansi skæður upp við mark andstæðinganna í sumar.

Styrkleikar: Liðið hefur á að skipa nokkrum mjög öflugum spilurum sem þekkja það vel að spila í 2. deild. Slíkt á eftir að reynast liðinu vel.

Veikleikar: Breiddin er ekki nægilega mikil miðað við að liðið hefur misst töluvert síðan í fyrra. Í staðinn hefur liðið fengið nokkra menn en sá fjöldi sem hefur yfirgefið liðið er töluverður. Liðið má illa við meiðslum í sumar ef árangurinn á að vera eitthvað annað en sæti í neðri hlutanum. Ef liðið sleppur við meiðsli er aldrei að vita hvað Stólarnir gera.

Þjálfari: Róbert Haraldsson. Uppalinn Siglfirðingur sem keyrir á milli Sauðárkróks og Siglufjarðar. Það er ekki á færi nema alvöru sveitamanna og hefur hann lítið fyrir því. Gífurlega öflugur framherji sem á eftir að nýtast liðinu afar vel í sumar.

Lykilmenn: Halldór Jón Sigurðsson, Gísli Eyland Sveinsson og Bjarki Már Árnason.

Komnir: Aðalsteinn Arnarsson frá Leikni, Kristófer Róbertsson, Skallagrími,Kristján Páll Jónsson frá Leikni, Saso Durasovic frá Dalvík, Sigurður Jóhann Stefánsson frá Elliða.

Farnir: Albert Sölvi Óskarsson í Leikni, Kristján Baldursson hættur, Guðmundur Vilbergsson í Hvöt, Ebbe Nygaard til Danmerkur, Haukur Skúlason, Jón Kristinn Skúlason hættur, Ágúst Ingi Ágústsson til Danmerkur.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. Tindastóll 103 stig
9. Völsungur 73 stig
10. ÍH 67 stig
11. Magni 59 stig
12. Hamar 30 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner