Heima er best. Sú fullyrðing á allavega vel við hjá Shaktar Donetsk frá Úkraínu. Ítalska liðið Roma varð í gær enn eitt liðið til að fara tómhent frá Donbass Arena leikvangnum þar sem Shaktar hefur lagt hvern andstæðinginn á fætur öðrum í gegnum árin.
54 heimaleikir í röð án taps. Ekkert lið hefur náð að leggja Shaktar á Donbass Arena síðan þessi fimm stjörnu leikvangur var opnaður 2009 sem verður að teljast hreint magnaður árangur. Síðast beið liðið lægri hlut á heimavelli árið 2008 þegar Sporting Lissabon frá Portúgal náði að komast heim með þrjú stig í bakpokanum.
Í fyrsta sinn er Shaktar að taka þátt í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar og telst í hópi átta bestu félagsliða Evrópu eftir úrslitin í gær. Þetta skemmtilega fótboltalið inniheldur marga góða fótboltamenn og þar á meðal eru virkilega sprækir Brasilíumenn. En árangur Shaktar hefur kostað sitt... hann hefur kostað peninga og nóg af þeim.
Síðasta áratug eða svo hefur Shaktar frá Donetsk verið ríkasta félag Úkraínu.
Einn maður sem öllu breytti
Uppgangur félagsins hófst þegar milljarðamæringurinn Rinat Akhmetov ákvað að fjárfesta í félaginu. Rinat er fæddur og uppalinn í Donetsk og ákvað að gera eitthvað til að gleðja íbúa borgarinnar sem margir hverjir bjuggu við atvinnuleysi og erfiðar aðstæður. Hann ákvað að gera það í gegnum fótbolta.
Rinat sýndi það fljótt að hann keypti félagið ekki í þeim eina tilgangi að hagnast á því. Æfingasvæði Shaktar var í agalegu ástandi þegar hann gekk frá kaupunum en það átti eftir að breytast fljótt. Hann lét meðal annars búa til öflugt net njósnara sem kræktu í spennandi leikmenn á færibandi og skyndilega var Shaktar orðið að liði í fremstu röð á evrópskan mælikvarða.
Með því að vinna Evrópubikarinn 2009 má segja að félagið hafi stimplað sig inn í Evrópufótboltann af alvöru. Shaktar er ríkjandi meistari í Úkraínu og með sinn öfluga heimavöll og skemmtilega fótbolta er ljóst að liðið er til alls líklegt á þessu tímabili.
Ekki er hægt að skrifa pistil um Shaktar án þess að minnast á þjálfara liðsins, Mircea Lucescu frá Rúmeníu. Lucescu er 65 ára og hefur komið víða við, meðal annars þjálfað á Ítalíu og Tyrklandi. Ekki var búist við því að hann yrði langlífur í starfi hjá Shaktar enda ekki haldist lengi hjá þeim félögum þar sem hann var á undan. Til að mynda hélt hann um stjórnartaumana hjá Inter í 22 leiki áður en honum var sparkað.
Lucescu hefur verið líkt við Arsene Wenger, stjóra Arsenal, og ekki að ástæðulausu. Báðir eiga það sameiginlegt að aðhyllast fallegan sóknarbolta og eru klókir í að finna unga og efnilega leikmenn sem kosta frekar lítinn pening. Hann hefur verið þjálfari Shaktar síðan 2004 og er í raun orðinn ósnertanlegur hjá félaginu.
Shaktar Donetsk hefur sýnt það að liðið er ekkert að grínast.