Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   mið 01. apríl 2020 23:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ekki búið að taka upp þetta tímabil hjá Sunderland
Þriðja þáttaröðin þá ekki útilokuð
Stuðningsmenn Sunderland.
Stuðningsmenn Sunderland.
Mynd: Getty Images
Önnur þáttaröðin af Sunderland 'Til I Die kom út í dag.
Önnur þáttaröðin af Sunderland 'Til I Die kom út í dag.
Mynd: Sunderland til i die
Í dag kom önnur þáttaröðin af Sunderland 'Til I Die inn á streymisveituna Netflix. Sérstaklega er það nú ánægjulegt fyrir þá fótboltaáhugamenn- og konur sem eru nú fastir heima í sóttkví eða einangrun vegna kórónuveirunnar.

Fyrsta þáttaröðin sló í gegn á Íslandi og víðar en hún fjallaði um um baráttu Sunderland í Championship-deildinni. Áhorfendur fá að skyggnast á bak við tjöldin og sjá það sem fór úrskeiðis hjá félaginu.

Eftir að hafa fallið úr ensku úrvalsdeildinni þá féll Sunderland beinustu leið úr Championship-deildinni í C-deildina. Í nýju þáttaröðinni er fjallað um síðasta tímabil hjá Sunderland í ensku C-deildinni og óhætt er að segja að þar hafi verið mikil dramatík eins og fyrri daginn.

Framleiðendur þáttanna, þeir Ben Turner og Leo Pearlman, segja í viðtali á BBC að tár hafi fallið er þáttaröðin var klippt. Þeir eru báðir stuðningsmenn Sunderland. „Ef einhver hefði sent handrit að þessari sögu þá hefðum við rifið það og hent því í ruslatunnuna því það hefði ekki verið hægt að trúa þessu," segir Pearlman um tímabilið í fyrra hjá Sunderland.

Þessi önnur þáttaröð snýst mikið um nýja eigendur félagsins, stjórnarformanninn Stewart Donald og kollega hans, Charlie Methven, sem sat í stjórn Sunderland en er þar ekki lengur núna. Þeir félagar bjuggu til gott sjónvarp að mati framleiðandanna „Þeir voru svo opnir og hreinskilnir," segir Pearlman.

„Það hvernig þeir birtast á skjánum, það eru þeir. Þeir eru ekkert öðruvísi hvort sem myndavélin er á þeim eða ekki."

Stuðningsmenn erkifjenda hafa sungið: „Við höfum séð ykkur gráta á Netflix," en framleiðendurnir segja að um öfundssýki sé að ræða. „Þeir eru öfundssjúkir að ekki sé til sjónvarpsþáttur um félög þeirra."

Núverandi leiktíð hefur ekki verið tekin upp, en ekki er útilokað að þriðja þáttaröðin komi í framtíðinni. „Tilfinningin er sú að þessi saga sé ekki búin," sagði Turner, en greinina má lesa í heild sinni hérna.
Athugasemdir
banner
banner