Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   lau 01. maí 2021 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Þú ert þá að meina að Óli Þórðar hefði ekki sett svona inn?"
Ísak Snær Þorvaldsson.
Ísak Snær Þorvaldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Snær Þorvaldsson leikmaður ÍA fékk að líta sitt annað gula spjald, og þar með rautt fyrir tæklingu í leik ÍA og Vals í Pepsi Max-deildinni á föstudagskvöld.

Það var opnunarleikur mótsins og endaði hann með 2-0 sigri Valsmanna. Skagamenn voru flottir í fyrri hálfleiknum en Íslandsmeistararnir sýndu mikinn kraft í þeim seinni.

Ísak fékk áminningu fyrir brot á Patrick Pedersen eftir klukkutíma leik. Sex mínútum síðar var hann sendur í sturtu eftir annað brot.

Hann var ekki sáttur og greindi hann frá óánægju sinni á Twitter: „Eiga ekki Íslendingar að vera grjótharðir Víkingar...🤔#pepsimaxdeildin þolir ekki smá hörku og það síður allt uppúr. #soft"

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, var einnig ósáttur við rauða spjaldið.

Rætt var um rauða spjaldið og Ísak í útvarpsþættinum Fótbolta.net í gær enda mikið verið rætt um það.

„Fyrra spjaldið er alla vega mjög nálægt því að vera gult spjald," sagði fótboltaþjálfarinn Rafn Markús Vilbergsson og talað var um það að fyrra gula spjaldið hefði verið „rúmlega" gult spjald. „Ég held að hann geti ekki verið mjög ósáttur við þetta á endanum."

„Þegar þú ert á gulu spjaldi, sérstaklega þegar það eru sex mínútur frá því að þú fékkst gult spjald, þá er mjög skynsamlegt að fara ekki í svona tæklingu með sólann 65 sentímetra frá jörðinni. Og ekki vera seinn í hana. Hann hefði getað sleppt því til dæmis. Reyndu aðeins að halda haus," sagði Tómas Þór Þórðarson.

Rætt var um tístið frá honum jafnframt. „Menn hafa verið vel hugsi og ekki getað sofnað. Gríðarlegt spennufall og svona," sagði Tómas en tístið kom um klukkan hálf þrjú um nóttina eftir leik.

Ísak var í umræðunni rétt fyrir mót eftir uppákomu í æfingaleik ÍA gegn KR þar sem allt sauð uppúr og dómari leiksins ákvað að flauta leikinn af.

„Mér finnst allt í lagi að vera svona nagli. Þeir sem eru búnir að sjá atvikið þá stígur hann inn í hann af rosalega miklum krafti. Gæinn er byggður eins og flugmóðurskip þannig að KR-ingurinn skýst í burtu. Hann er klettharður í gær, alvöru tækling og kemur með 'fear-factor' inn í aðra leikmenn. Mér finnst það allt í lagi. Ef hann er þessi gæi - sem stígur inn menn, setur öxlina, rífur kjaft, tæklar og svona - þá er það frábært. Þá máttu samt ekki fara að væla, annað hvort ertu harður eða ekki. Það er besta mál að vera nagli," sagði Tómas.

„Vertu þessi alpha-hundur sem Skaginn þarf á miðjunni en þá er bannað að fara á Twitter og væla eftir á ef þú færð rautt spjald."

„Þú ert þá að meina að Óli Þórðar hefði ekki sett svona inn?" sagði Rafn Markús léttur. „Ég held ekki," sagði Tómas og bætti við:

„Ég hef tröllatrú á þessum strák."

Ísak er efnilegur leikmaður sem er á láni hjá ÍA frá Norwich í Englandi. Ísak er aðeins 19 ára.

Sjá einnig:
Ísak Snær svarar fyrir sig: Ég kýli aldrei leikmann KR
Útvarpsþátturinn - Lengjuspáin og opnunarleikurinn krufinn
Athugasemdir
banner
banner
banner