Fyrrum atvinnu- og landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason hefur verið ráðinn sem yfirmaður fótboltamála hjá norska félaginu Rosenborg.
Hann kemur til félagsins eftir að hafa starfað hjá Breiðabliki í um eitt og hálft ár sem tæknilegur ráðgjafi. Samningur hans við Rosenborg mun gilda til ársins 2030.
Hann kemur til félagsins eftir að hafa starfað hjá Breiðabliki í um eitt og hálft ár sem tæknilegur ráðgjafi. Samningur hans við Rosenborg mun gilda til ársins 2030.
Alfreð er uppalinn hjá Breiðabliki, fór erlendis eftir að hafa orðið Íslandsmeistari 2010 og lék í um einn og hálfan áratug erlendis sem atvinnumaður. Hann lék í Belgíu, Svíþjóð, Hollandi, Spáni, Grikklandi, Þýskalandi og í Danmörku á atvinnumannaferlinum. Hann lék 73 A-landsleiki, skoraði átján mörk og lék bæði á EM og HM. Hann lagði skóna á hilluna haustið 2024.
Hann er með íþróttastjórnunargráðu úr Johan Cruyff skólanum á Spáni.
Rosenborg er risafélag í Noregi og vann 23 Noregsmeistaratitla á árunum 1985-2018 þegar síðasti meistaratitilinn vannst. Ísak Snær Þorvaldsson er leikmaður Rosenborg en hann er á láni hjá Lyngby í Danmörku.
Tilkynning Breiðabliks
Alfreð kom til starfa hjá knattspyrnudeildinni í ágúst 2024, Þá ennþá leikmaður erlendis. Hann hefur síðan þá verið afar mikilvægur hluti af öllu okkar starfi, hvort sem horft er til uppbyggingar og þróunar meistaraflokka félagsins eða áherslna og framtíðarsýnar hjá yngri flokkunum.
Það hefur sést vel í öllum verkum Alfreðs að sterkt Breiðablikshjarta slær í brjósti hans og áhugi hans og metnaður fyrir félaginu okkar er mikill. Alfreð lék með Breiðabliki á árunum 2008 til 2010, vann Íslands- og bikarmeistaratitil með félaginu og átti í framhaldi glæstan atvinnumannaferil.
Nú þegar hann hverfur frá okkur á ný fylgja honum innilegar þakkir frá öllu stuðningsfólki Breiðabliks.
Hvert sem liggur þín leið munum við halda áfram að fylgjast stolt með þér en þér og þínum fylgja óskir um farsæld og gott gengi í næstu verkefnum.
Athugasemdir


