Heims- og Sambandsdeildarmeistarar Chelsea eru hættir að eltast við franska landsliðsmarkvörðinn Mike Maignan, en hann er nálægt því að framlengja samning sinn við AC Milan á Ítalíu.
Chelsea hafði verulegan áhuga á því að fá Maignan í sumarglugganum og lagði fram 12,6 milljóna punda tilboð en Milan hafnaði.
Á endanum gafst Chelsea upp og ákvað að treysta Robert Sanchez fyrir aðalmarkvarðarstöðunni.
Samningur Maignan rennur út eftir tímabilið og má hann ræða við önnur félög en ætlar að halda kyrru fyrir samkvæmt ítalska blaðamanninum Gianluca Di Marzio.
Hann mun skrifa undir nýjan fimm og hálfs árs samning og þéna 5,7 milljónir evra í árslaun sem gerir hann að einum af þeim allra launahæstu hjá félaginu.
Maignan kom til Milan frá Lille árið 2021 og verið fastamaður í markinu síðan. Hann á þá 37 A-landsleiki með Frökkum, en hann lék sinn fyrsta landsleik árið 2020 og var varamarkvörður áður en hann tók við sem aðalmarkvörður eftir að Hugo Lloris lagði landsliðshanskana á hilluna árið 2023.
Athugasemdir



