Arsenal 0 - 0 Liverpool
Topplið Arsenal gerði markalaust jafntefli við Englandsmeistara Liverpool í 21. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Emirates-leikvanginum í Lundúnum í kvöld.
Arsenal er í frábæru formi og leiðir baráttuna um Englandsmeistaratitilinn á meðan þetta hefur verið upp og ofan hjá meisturunum.
Heimamenn voru með ágætis tök á leiknum fyrstu mínúturnar en það var Conor Bradley sem átti hættulegustu tilraun fyrri hálfleiksins er hann fékk boltann eftir misskilning á milli David Raya og William Saliba.
Saliba sendi fasta sendingu til baka á Raya sem missti hann út á Bradley. Hann lyfti boltanum yfir Spánverjann, en tréverkið kom Arsenal til bjargar.
Declan Rice átti fínustu tilraun undir lok fyrri hálfleiks sem Alisson varði vel.
Markalaust í hálfleik en Liverpool var með öll völd á síðari hálfleiknum.
Liverpool kom sér í margar góðar stöður en fór oft illa með þær. Liverpool-menn vildu þá fá vítaspyrnu er Leandro Trossard fór í Florian Wirtz í teignum, en ekkert dæmt. Á hinum endanum datt Gabriel Martinelli eftir viðskipti sín við Jeremie Frimpong en Anthony Taylor, dómari leiksins, hafði lítinn áhuga á þessum atvikum og áfram hélt leikurinn.
Síðustu mínúturnar fóru Arsenal-menn að bæta aðeins og áttu nokkrar tilraunir en Alisson var vandanum vaxinn í markinu.
Þegar fáeinar mínútur voru eftir af uppbótartímanum átti sér stað mjög sérstakt atvik. Bradley meiddist á hné og lagðist í grasið, en Martinelli var allt annað en sáttur og ýtti meiddum Bradley sem vakti hörð viðbrögð frá leikmönnum Liverpool. Spjöldin fóru á loft.
Bradley var borinn af velli á sjúkrabörum og útlit fyrir að hann verði lengi frá vegna meiðsla.
Markalaust jafntefli varð niðurstaðan. Arsenal átti þarna möguleika að koma sér vel fyrir í bílstjórasætinu um titilinn, en er núna áfram með sex stiga forystu á Manchester City og Aston Villa. Liverpool er í 4. sæti með 35 stig.
Athugasemdir




