'Mér finnst við vera með sterkari hóp í dag og vonandi náum við núna þessum herslumun sem okkur vantaði þá'
'Ég er ekkert að drífa mig, en það er ekki spurning að það er mjög spennandi að fá að búa til sitt eigið verkefni og geta þróað það áfram'
ÍBV vildi fá Aron Baldvin Þórðarson, aðstoðarþjálfara Víkings, til að taka við sem þjálfari liðsins. ÍBV ræddi við Víking sem vildi fá ákveðna upphæð, nokkrar milljónir króna, fyrir Aron Baldvin en áður en samkomulag náðist sleit Víkingur viðræðunum og ljóst að Aron Baldvin fer hvergi.
Aron Baldvin var tilbúinn að taka slaginn og flytja til Eyja en Víkingur hafnaði tilboði tilboði Eyjamanna og sleit viðræðunum áður en ÍBV gat boðið uppsett verð. Fótbolti.net ræddi við hinn þrítuga Aron Baldvin í dag.
Aron Baldvin var tilbúinn að taka slaginn og flytja til Eyja en Víkingur hafnaði tilboði tilboði Eyjamanna og sleit viðræðunum áður en ÍBV gat boðið uppsett verð. Fótbolti.net ræddi við hinn þrítuga Aron Baldvin í dag.
Blendnar tilfinningar
„Ég get alveg viðurkennt það að ég var mjög svekktur og þetta var alveg högg fyrir mig. Ég gerði ráð fyrir því að félögin myndu ná saman. Þetta var stórt tækifæri og mér fannst ég vera tilbúinn í það, hausinn var alveg aðeins kominn þangað, farinn að pæla hvað maður gæti gert með ÍBV."
„Þegar ég heyrði hlið Víkinga, hversu mikilvægur ég væri fyrir félagið, þá eru engar slæmar tilfinningar eftir þetta. Víkingur hefur gefið mér rosaleg tækifæri, ég kom inn fyrir sex árum síðan sem aðstoðarþjálfari í 4. flokki og á 6-7 árum er ég orðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks. Ég hef lært gríðarlega mikið hérna og er með stórt Víkingshjarta. Núna horfi ég á þetta stóra verkefni framundan í Víking og legg allt í sölurnar að hjálpa liðinu að ná sínum markmiðum," segir Aron Baldvin.
Velti fyrir sér breytingum og skoðaði hópinn
Varstu kominn langt í hugsuninni hvað þú vildir gera með ÍBV, hvernig þú vildir hafa hlutina?
„Ég held að það gerist bara ósjálfrátt, maður skoðar liðið nánar þegar staðan er svona. Ég auðvitað fylgdist með þeim sem þjálfari í deildinni í fyrra en ég fór alveg að pæla í hvað væri hægt að gera og hvernig ég gæti bætt félagið. Ég skoðaði hópinn, hvernig umgjörðin væri, maður vill auðvitað kanna það allt. Eftir að ég spjallaði við þá, þá urðu pælingarnar alltaf meiri og meiri."
„Ég var tilbúinn að taka slaginn og flytja til Eyja. Þetta snerist um að félögin myndu ná saman, ég held að viðræðurnar milli mín og ÍBV hefðu orðið formsatriði. Ég á níu mánaða grísling og kærustu og við vorum öll tilbúin að fara."
Þakklátur bæði ÍBV og Víkingi
Hvernig leið þér með það að félag í efstu deild vildi fá þig sem aðalþjálfara?
„Ég var mjög þakklátur fyrir traustið. Ég var virkilega spenntur og finnst ég vera tilbúinn. Ég skil alveg að þeir sem fylgjast með utan frá þekkja kannski ekki mikið til mín, en ég er í stóru hlutverki hjá Víkingi. Sölvi (Geir Ottesen, aðalþjálfari) gefur mér risa hlutverk í að leggja upp leiki og almennt í taktískum atriðum liðsins."
„Ég var orðinn ansi spenntur þegar þetta kom upp á borð, ekki það að ég hafi verið eitthvað að skoða í kringum mig eða hugsa um að fara úr Víkinni - alls ekki - ég er mjög ánægður þar. Ég er svekktur að þetta gekk ekki í gegn, en það sýndi sig núna hversu stórt Víkingar horfa á mig og ég er þakklátur fyrir það."
„Í dag er Víkingur fullmótað lið, auðvitað alltaf í þróun, en ég líki þessu oft við Arsenal, við erum orðnir öflugir á mörgum sviðum leiksins og í umgjörð. Fyrir nokkrum árum var Víkingur á þessum stað þar sem ÍBV og fleiri lið eru á í dag og fyrir mann eins og mig, sem var með í ferlinu að koma Víkingi á þennan stað, var mjög spennandi að taka lærdóminn úr þessu starfi og búa eitthvað til annars staðar."
Talaði ekki við framkvæmdastjórann
Hvernig eru viðræður við ÍBV? Var eitthvað samtal við framkvæmdastjórann og fyrirliðann Alex Frey Hilmarsson?
„Nei, ég talaði aldrei við Alex. Ég talaði við Magga formann og tvo Daníela í stjórninni. Við áttum mjög áhugavert og gott spjall."
Spurðir þú einhvern tímann út í hvernig fyrirkomulagið með Alex yrði í kringum liðið?
„Það var ekki komið þangað nei. Ég hefði sennilega spurt að því þegar þetta hefði verið komið lengra, til þess að vita hvert hlutverk framkvæmdastjóra ÍBV væri. Í Víkinni kemur framkvæmdastjórinn að rekstri alls félagsins. Ef það er eins í ÍBV þá hefði það ekki truflað mig."
Sér um taktíkina og leggur upp leikina með Sölva
Það segir ansi margt að Víkingur hafni tilboði í aðstoðarþjálfarann sinn, það er merki um mikilvægi hans. Hann er öflugur þjálfari og með mikla þekkingu á taktík. En hvernig skilgreinir hann hlutverkið sitt?
„Verkaskiptingin hjá okkur er mjög skýr. Viktor Bjarki (Arnarsson) og Kári (Sveinsson) styrktarþjálfari sjá um hefðbundnar æfingar, skipuleggja þær og stýra þeim. Ég og Sölvi sjáum um að leggja upp leikina, taktíkina og taktísku hliðina á æfingunum."
Sterkari hópur en síðast í þessari stöðu
Aron Baldvin er spenntur fyrir komandi tímabili.
„Ég er mjög spenntur, við erum með stór markmið. Núna er svipað tímabil að fara af stað og eftir 2023, fórum inn í 2024 sem Íslandsmeistarar og vorum mjög nálægt fullkomnu tímabili (komust í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar en enduðu í 2. sæti í deild og bikar). Mér finnst við vera með sterkari hóp í dag og vonandi náum við núna þessum herslumun sem okkur vantaði þá. Það er mikið af ferðalögum framundan sem búa til mikið af minningum."
Er ekki að drífa sig
Þín framtíð, þú hljómar eins og draumurinn sé að verða aðalþjálfari.
„Ég er ekkert að drífa mig, en það er ekki spurning að það er mjög spennandi að fá að búa til sitt eigið verkefni og geta þróað það áfram - svipað og Arnar (Gunnlaugsson) gerði með Víkingi á sínum tíma."
„Á meðan ég er hjá Víkingi held ég áfram að hjálpa til við þróun liðsins, við pössum okkur á að vera í takti við það sem er að gerast í alþjóðlegum fótbolta. Þó að liðið sé mjög öflugt þá eru alltaf einhver smáatriði sem hægt er að aðlaga," segir Aron Baldvin að lokum.
Athugasemdir



