Man City bjartsýnt á að skáka Liverpool í baráttu um Guehi - Man City hefur áhuga á Michael Kayode - Rudiger aftur til Chelsea?
   fös 09. janúar 2026 12:17
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Ari ræðir fall Norrköping og nýja stefnu Vals - „Félagið átti fullt af peningum"
Í leik með Norrköping.
Í leik með Norrköping.
Mynd: Guðmundur Svansson
Lék með Val áður en hann fór út í atvinnumennsku.
Lék með Val áður en hann fór út í atvinnumennsku.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég held það séu bara ég og Birkir Már úr unglingastarfinu sem urðum atvinnumenn, það má kannski bæta Ingólfi Sigurðssyni með'
'Ég held það séu bara ég og Birkir Már úr unglingastarfinu sem urðum atvinnumenn, það má kannski bæta Ingólfi Sigurðssyni með'
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Þór Veruson
'Ef blandan er góð þá getur þetta orðið mjög gott.'
'Ef blandan er góð þá getur þetta orðið mjög gott.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór Smárason var tæknilegur ráðgjafi Vals áður en hann hélt til Svíþjóðar og starfar hann í dag fyrir Hammarby.
Arnór Smárason var tæknilegur ráðgjafi Vals áður en hann hélt til Svíþjóðar og starfar hann í dag fyrir Hammarby.
Mynd: Hammarby
Norrköping féll úr sænsku Allsvenskan í haust eftir skelfilegan lokakafla, liðið vann ekki leik á lokakaflanum, þurfti að fara í umspil um að halda sætinu en steinlá þar og verður því í næstefstu deild á komandi tímabili.

Norrköping er sögulega mikið Íslendingafélag. Þrír Íslendingar voru í leikmannahópnum á liðnu tímabili og Ari Freyr Skúlason var í þjálfarateyminu, og verður þar áfram. Ari var til viðtals á dögunum hér á Fótbolti.net og var hann spurður hvort markmið félagsins væri skýrt; að komast beint aftur upp í efstu deild.

Voru næstríkastir en komu sér í skuldasúpu
„Það er það sem allir vilja, fara aftur upp. Því miður hefur klúbburinn verið illa rekinn síðustu tíu ár, við höfum farið úr því að vera næstríkasta félagið í Svíþjóð í það að vera með hálfan milljarð í skuld. Það er ágætis högg að fara niður en það högg verður ekki fyrr en eftir 2026 þegar sjónvarpspeningarnir koma ekki lengur," segir Ari.

„Við viljum fara upp, en við viljum gera það rétt. Við viljum ekki henda út fullt af peningum sem við eigum ekki, fara svo kannski ekki upp og félagið á enn verri stað. Það er því smá stefnubreyting hjá okkur, við viljum vera með unga og uppalda leikmenn í bland við eldri leikmenn og séð til þess að félagið sé vel rekið. Við erum á réttri leið, Magni (Fannberg) byrjaði það með því að minnka leikmannahópinn á síðasta tímabili og minnka launakostnað. Sá sem tók við af honum er að gera það sama, þannig það er verið að rétta úr skútunni peningalega séð."

Er einhver augljós ástæða fyrir því af hverju tímabilið endaði eins illa og það gerði í haust?

„Þetta er búið að vera á leiðinni myndi ég segja. Við seldum Ísak Bergmann Jóhannesson, Arnór Sigurðsson og Jón Guðna Fjóluson ásamt fleiri leikmönnum, félagið átti fullt af peningum. Það voru leikmenn keyptir á fullt af peningum, leikmenn sem gáfu okkur ekkert. Þetta er fljótt að fara ef það er eytt miklu í marga leikmenn. Á tíma fyrri stjórnenda héldu menn alltaf að allt væri í góðu, en þegar farið var yfir bókhaldið þá var staðan ekki eins góð."

„Á síðasta tímabili vorum við með 16-17 leikmenn sem við treystum á og unga leikmenn með þeim. Við þurftum að fara þá leið, höfðum ekki fleiri leikmenn, og svo fór sem fór, því miður."


Peningarnir í því að selja unga leikmenn
Ari Freyr Skúlason er uppalinn Valsari. Valur hefur breytt um stefnu hjá sér og horfir meira í það að gefa yngri leikmönnum tækifæri. Hvernig lýst Ara á það sem Valur er að gera?

„Ég er búinn að fylgjast með þessu og talaði við Arnór Smára síðasta sumar, hann kom inn í þetta áður en hann fór aftur út. Peningarnir eru í því að selja unga leikmenn, á Íslandi erum við ekki með stuðningsmenn sem fylla 10-20 þúsund manna velli - eins og Hammarby og fleiri stórlið á Norðurlöndunum eru með."

„Ég hef alltaf sagt að maður eigi að vera með góða blöndu af eldri leikmönnum sem vilja hjálpa þeim ungu, og geta svo selt ungu leikmennina út. Breiðablik sem dæmi hefur selt ótal marga leikmenn út. Valsmenn hafa verið þekktir fyrir það að vera ekki með besta unglingastarfið. Ég held það séu bara ég og Birkir Már úr unglingastarfinu sem urðum atvinnumenn, það má kannski bæta Ingólfi Sigurðssyni með."

„Mér finnst frábært hjá Val að hugsa um ungu strákana og stelpurnar, reyna byggja upp eins og akademíu og fá unga leikmenn upp í meistaraflokkana. Það er ekki hægt að vera alltaf að kaupa alla leikmenn inn. Ef blandan er góð þá getur þetta orðið mjög gott. Þetta getur líka farið þannig að ekkert vinnst og það verður ströggl í einhvern tíma, en ef trúin helst þá getur þetta orðið mjög gott."


Of lítið sett í yngri flokkana
Félagið og stjórnarmenn hafa fengið sinn skerf af gagnrýni að undanförnu. Er erfitt að sjá þessa gagnrýni á félagið þitt?

„Ég er Valsari í húð og hár. Þegar ég fór út fyrst 06/07 þá var allt í blóma í fjárhagnum hjá Val, svo hverfa peningarnir, en tíu árum seinna komu fjármunirnir aftur. Þeim var spreðað í fullt af fólki, hingað og þangað, það var svolítið Valslegt getur maður sagt. Börkur gerði ótrúlegt starf fyrir Val. Það er ekki létt að koma inn og fara breyta hlutunum, þetta mun taka tíma. Fólk má ekki hugsa þannig að liðið verði meistari strax af því það urðu breytingar, en svo lengi sem blandan er góð milli ungra og eldri leikmanna, þá munum við vera með mjög flott lið og fá fram flottan efnivið sem síðan er hægt að selja. Það er það sem gefur peninginn, að selja leikmenn út og þeir nái svo lengra sem kemur með enn meiri pening inn. Skaginn og Breiðablik hefur verið að gera þetta síðustu ár."

„Mér finnst erfitt að sjá litla Ísland kaupa leikmenn frá Norðurlöndunum en ekki horfa í ungu strákana sína. Á sama tíma skil ég ungu strákana, þeir fara snemma út af því það er skemmtilegt að fara út og verða atvinnumaður; reyna slá í gegn þar en það er mjög erfitt. Svo enda þeir heima og fá kannski annað tækifæri. Fyrir mitt leyti fara mjög margir alltof snemma heim, gefast upp of fljótt af því launin eru svo góð heima, mjög vel borgað."

„Það sem margir eru með á Íslandi í laun fá menn ekki einu sinni í efstu deild í Svíþjóð. Samt eru tíu þúsund manns á vellinum hér úti, en kannski 500 heima á Íslandi. Þetta er svolítið skrítið, ég segist ekki skilja þetta þegar fólk spyr mig hvernig þetta virkar. Ég hef ekki séð tölurnar, veit ekki hvernig þetta á að ganga upp. Mestallur peningurinn fer í meistaraflokkana og of lítið í yngri flokkana. Aðstaðan á Íslandi er mjög góð á mörgum stöðum, innanhússhallir og gervigrasvellir, og það þyrfti að hækka prósentuna af peningunum sem fara í yngri flokkana. Það eru frábærir ungir leikmenn hjá félögunum og það þarf að gefa þeim tíma og tækifæri,"
segir Ari Freyr.
Athugasemdir
banner
banner
banner