Man City bjartsýnt á að skáka Liverpool í baráttu um Guehi - Man City hefur áhuga á Michael Kayode - Rudiger aftur til Chelsea?
   fim 08. janúar 2026 20:12
Brynjar Ingi Erluson
PSG vann Ofurbikarinn eftir mikla dramatík
Goncalo Ramos jafnaði í uppbótartíma og líka í vítakeppninni
Goncalo Ramos jafnaði í uppbótartíma og líka í vítakeppninni
Mynd: EPA
Mason Greenwood skoraði fyrir Marseille
Mason Greenwood skoraði fyrir Marseille
Mynd: EPA
PSG 2 - 2 Marseille (4-1 eftir vítakeppni)
1-0 Ousmane Dembele ('13 )
1-1 Mason Greenwood ('76, víti )
1-2 Willian Pacho ('87, sjálfsmark )
2-2 Goncalo Ramos ('90 )

Franska stórliðið Paris Saint-Germain bætt enn einum titlinum við safnið er það vann Marseille eftir vítakeppni í Ofurbikar Frakklands í kvöld.

PSG vann þrennuna á síðustu leiktíð og því ljóst að Marseille yrði andstæðingur liðsins í Ofurbikarnum þar sem liðið hafnaði í öðru sæti deildarinnar á síðustu leiktíð.

Ousmane Dembele, besti leikmaður heims, kom PSG yfr á 13. mínútu eftir slæm varnarmistök Marseille. Vitinha fékk boltann frá varnarmanni Marseille, kom með frábæra sendingu inn á Dembele sem lyfti boltanum yfir markvörðinn og í netið.

Marseille var stöðugt að ógna PSG-mönnum og þá oftast eftir hornspyrnur en Lucas Chevalier, markvörður PSG, var frábær í markinu.

Þegar stundarfjórðungur var til leiksloka fengu Marseille menn vítaspyrnu er Mason Greenwood skaust í gegn og ætlaði sér framhjá Chevalier í markinu, en Frakkinn braut á honum og vítaspyrna dæmd. Greenwood fór sjálfur á punktinn og jafnaði metin.

Tíu mínútum síðar kom annað mark Marseille. PSG tapaði boltanum eftir innkast, boltanum komið á vinstri vænginn og boltinn inn á teiginn. Willian Pacho ætlaði sér að hreinsa frá, en fékk boltann í sig og í netið.

Evrópumeistararnir sýndu það og sönnuðu af hverju þeir eru besta lið heims. Í uppbótartíma jafnaði varamaðurinn Goncalo Ramos metin eftir stórkostlega sókn.

Vitinha með langan bolta út á vinstri kantinn á Bradley Barcola sem kom með fyrirgjöfina í fyrsta á Ramos sem skoraði með viðstöðulausu skoti og tryggði PSG vítaspyrnukeppni.

Chevalier var magnaður í vítakeppninni og varði tvær spyrnur á meðan liðsfélagar hans skoruðu úr öllum fjórum spyrnum sínum og tryggðu PSG sigurinn. Þetta er í fjórtánda sinn sem PSG vinnur keppnina.

Vítakeppnin:
1-0 Goncalo Ramos
1-0 Matt O'Riley klúðrar
2-0 Vitinha
2-0 Haked Junior Traore klúðrar
3-0 Nuno Mendes
3-1 Michael Murillo
4-1 Desire Doue

Franski boltinn er á Livey en hægt er að tryggja sér áskrift með því að smella á tengilinn
Athugasemdir
banner
banner