Greenwood orðaður við Liverpool - Bournemouth vill Nwaneri lánaðan - Glasner ræðir við Palace áður en hann tekur ákvörðun
   fim 08. janúar 2026 12:48
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Frá KA til Gautaborgar
Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson
Jonathan Rasheed, sem gekk í raðir KA fyrir síðasta tímabil en missti af stórum hluta tímabilsins, er sennilega á leið til Gautaborgar í Svíþjóð. Sportsbladet í Svíþjóð sagði frá þessu á dögunum og markvörðurinn ræddi sjálfur við Fotbollskanalen í gær.

Rasheed kom til KA síðasta vetur en varð fyrir því óláni að slíta hásin skömmu eftir komu sína til Íslands. Hann sneri aftur á völlinn í lok tímabils og náði þremur leikjum með KA.

Búist er við því að hann gangist undir læknisskoðun hjá Gautaborg á næstu dögum. Gautaborg er í markmannsleit eftir að Pontus Dahlberg var seldur til Lilleström í Noregi. Elis Bishesari er aðalmarkmaður Gautaborgar og Rasheed á að veita honum samkeppni.

„Ég hef rætt við þá Bláhvítu. Við sjáum til hvað verður úr því. Það gæti verið rétt að ég sé á leið í læknisskoðun," segir Rasheed við Fotbollskanalen.

Hann er 34 ára og segir að auðvitað vilji hann vera aðalmarkmaður, en ef það verði ekki staðan þá verði hann að leggja eins hart að sér og hann geti til að verða númer eitt.

Rasheed hefur spilað í Svíþjóð og Noregi á sínum ferli. Flesta leiki á hann að baki með Värnamo og hann var í leikmannahópi Häcken þegar liðið varð sænskur meistari 2022.

Gautaborg endaði í 4. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar í fyrra. Kolbeinn Þórðarson er lykilmaður í liðinu.
Athugasemdir
banner
banner