Age Hareide, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, verður lagður til hinstu hvílu í dag. Hann lést í síðasta mánuði, 72 ára að aldri, eftir að hafa greinst með krabbamein í heila. Útförin fer fram í dómkirkjunni í Molde.
Hareide stýrði íslenska landsliðinu í eitt og hálft ár og var nálægt því að koma landsliðinu á EM. Ísland fór í umspil um laust sæti á mótinu og tapaði þar úrslitaleik gegn Úkraínu eftir að hafa slegið Ísrael úr leik.
Íslenska landsliðsþjálfarastarfið var síðasta þjálfarastarf Hareide en hann stýrði einnig danska og sænska landsliðinu, auk ýmissa stórvelda frá Skandinavíu. Hann vann efstu deild í Svíþjóð, Noregi og Danmörku á þjálfaraferlinum sínum.
Meðal gesta í útförinni verða dönsku landsliðsmennirnir Christian Eriksen, Simon Kjær, fyrrum stjóri Svíþjóðar Jon Dahl Tomasson og Ståle Solbakken, landsliðsþjálfari Noregs.
Útförin hefst klukkan 12:00 að staðartíma, 11:00 á íslenskum tíma. Jarðaförin verður sýnd í beinni útsendingu á norska ríkisútvarpinu.
Athugasemdir





