Man City bjartsýnt á að skáka Liverpool í baráttu um Guehi - Man City hefur áhuga á Michael Kayode - Rudiger aftur til Chelsea?
   fim 08. janúar 2026 15:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Bíður eftir rétta tækifærinu - „Alltaf verið draumur að fara út"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári Sigfússon, sem valinn var besti leikmaður Keflavíkur á síðasta tímabili, er sem stendur samningslaus eftir að samningur hans við Keflavík rann út í lok árs.

Mörg félög á Íslandi hafa sýnt honum áhuga, bæði félög í Bestu deildinni og Lengjudeildinni, en hann á eftir að taka ákvörðun um hvar hann spilar næst. Það hefur einnig verið áhugi á honum erlendis, bæði frá Finnlandi og Danmörku.

Fótbolti.net ræddi við sóknarmanninn í dag.

„Eins og staðan er núna er ég samningslaus og frjáls ferða minna. Það var rætt við Keflavík, en á endanum fannst mér tímabært að skoða aðra kosti. Ég er þakklátur fyrir minn tíma þar og ber mikla virðingu fyrir Keflavík, það er klúbbur sem ég útiloka aldrei. Einbeitingin núna er að finna rétta næsta skrefið," segir Kári.

Hvernig hefur veturinn verið til þessa?

„Veturinn er búinn að vera öðruvísi en vanalega, en ég hef lagt áherslu á að halda mér í góðu standi. Ég heyrði í Óskari Hrafn og æfði með KR fyrir áramót, frábært að komast á alvöru æfingar þar."

Það hefur heyrst af áhuga erlendis frá, leitar hugurinn út?

„Það hefur alltaf verið draumur að fara út og spila fótbolta og ég myndi eiga erfitt með það að segja nei við spennandi tækifæri erlendis."

Hefur þú fundið fyrir miklum áhuga innanlands?

„Það hefur verið áhugi innanlands, en fyrir mér snýst þetta fyrst og fremst um að finna rétta liðið. Ég vil fara í umhverfi þar sem ég get haldið áfram að þróast og leggja mitt af mörkum, hvort það sé hér heima eða erlendis."

Ertu með einhvern tímaramma hvenær þú vilt vera búinn að taka ákvörðun um næsta skref?

„Ég er ekki með fastan tímaramma, en það væri kostur að þetta skýrðist fyrir Lengjubikarinn. Fyrir mér snýst þetta um að taka rétta ákvörðun," segir Kári.

Hann er 23 ára sóknarmaður sem uppalinn er hjá Fylki og hefur líka spilað með Gróttu, Elliða, Þrótti Vogum og Keflavík á sínum ferli. Á liðnu tímabili skoraði hann tíu mörk í Lengjudeildinni og hjálpaði Keflavík að vinna sér sæti í Bestu deildinni.
Athugasemdir
banner
banner