Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 03. apríl 2020 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Stuðningsmenn Tottenham vilja launaskerðingu leikmanna
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Stuðningsmenn Tottenham eru ekki sáttir með hvernig félagið er að haga sér í kórónuveirufaraldrinum og vilja sjá leikmenn taka á sig launalækkanir til að bjarga öðru starfsfólki félagsins.

Starfsmenn félagsins hafa verið sendir í leyfi með 20% launalækkun á meðan leikmenn fá enn sínar stjarnfræðilegu upphæðir vikulega, enda mega ensk knattspyrnufélög ekki lækka laun leikmanna án leyfis frá leikmannasambandinu.

Daniel Levy, forseti Tottenham, hefur sjálfur tekið á sig launalækkun en stuðningsmenn gefa lítið fyrir það fordæmi enda bálreiðir yfir þeim himinháu upphæðum sem hann tekur frá félaginu til að borga sjálfum sér laun og hina ýmsu bónusa.

„Við höldum áfram að mæla sterklega með því að félagið greini ítarlega frá því sem er að gerast þessa dagana," segir í yfirlýsingu frá einum helsta stuðningsmannahóp félagsins.

„Það sem hefur vakið mesta reiði meðal stuðningsmanna er að ríkt félag eins og Tottenham sé að skerða laun starfsmanna og biðja um aðstoð úr ríkiskassanum til að halda áfram að greiða þeim laun. Allt þetta er gert á meðan launahæstu starfsmenn félagsins sitja í skjóli undir regnhlífinni með óskert laun.

„Við vitum að Tottenham má ekki skerða laun leikmanna án samþykkis frá leikmannasambandinu. Það breytir því ekki að leikmenn félagsins geta komið saman og bjargað öðru starfsfólki, það er það sem við viljum sjá."


Sjá einnig:
Starfslið Tottenham tekur á sig launalækkanir

Starfsfólk Spurs sagt mjög ósátt - Levy fékk 7 milljónir punda
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner