De Zerbi á blaði Real Madrid - Ekki hægt að laga samband Ten Hag og Sancho - Chelsea vill fá vinstri bakvörð
banner
   sun 04. júní 2023 15:00
Ívan Guðjón Baldursson
Jónatan og Valdimar á skotskónum - Júlíus meiddist
watermark
Mynd: Fótbolti.net - Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
watermark
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
watermark
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Jónatan Ingi Jónsson og Valdimar Þór Ingimundarson sáu um markaskorunina er Sogndal lagði Start að velli í Íslendingaslag í B-deild norska boltans í dag.


Sogndal vann leikinn 2-1 og voru öll mörkin skoruð í síðari hálfleik. Jónatan Ingi gerði fyrsta markið en gestirnir úr Start jöfnuðu með marki úr vítaspyrnu. Valdimar Þór gerði svo sigurmarkið á 76. mínútu og tryggði dýrmæt stig fyrir sína menn sem höfðu tapað tveimur í röð fyrir leikinn í dag.

Sogndal er í öðru sæti deildarinnar eftir þennan sigur, með 20 stig eftir 11 umferðir, einu stigi eftir toppliði Kongsvinger. Bjarni Mark Antonsson var í byrjunarliði Start sem situr eftir í sjötta sæti með 17 stig.

Júlíus Magnússon var þá í byrjunarliði Fredrikstad gegn Arnari Þór Guðjónssyni og félögum í Raufoss en meiddist í fyrri hálfleik og var skipt útaf á 31. mínútu. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli og er Fredrikstad í toppbaráttunni með 19 stig á meðan Raufoss situr eftir í fallbaráttunni.

Brynjólfur Darri Willumsson kom þá inn af bekknum á 69. mínútu í 2-0 tapi Kristiansund gegn KFUM Oslo. Kristiansund er með 18 stig eftir tapið, en sigur í dag hefði fleytt liðinu upp að hlið Kongsvinger í toppsætinu.

Sogndal 2 - 1 Start
1-0 Jónatan Ingi Jónsson ('55)
1-1 L. Mares ('70, víti)
2-1 Valdimar Þór Ingimundarson ('76)

Raufoss 1 - 1 Fredrikstad

KFUM Oslo 2 - 0 Kristiansund

Esbjerg er þá komið skrefi nær því að tryggja sig upp í B-deild danska boltans með 2-1 sigri gegn Thisted FC. Ísak Óli Ólafsson er leikmaður Esbjerg og gæti því fengið tækifæri til að spreyta sig í næstefstu deild í haust.

Það eru tvær umferðir eftir af deildartímabilinu og getur Esbjerg svo gott sem tryggt sér sæti í B-deildinni með sigri gegn B.93 í næstu umferð.

Komist Esbjerg upp mun liðið spila með SönderjyskE í B-deildinni. Atli Barkarson er leikmaður Sönderjyske og lék hann allan leikinn í 3-2 sigri gegn Helsingor. Atli og félagar enda í þriðja sæti B-deildarinnar, aðeins tveimur stigum frá sæti í efstu deild.

Alfons Sampsted var þá ónotaður varamaður er FC Twente rúllaði yfir Heerenveen í umspili um sæti í Sambandsdeildinni í sumar. Joshua Brenet spilaði í hægri bakverði, hann var meðal bestu leikmanna vallarins og kórónaði góða frammistöðu með marki. 

Twente mætir annað hvort Sparta Rotterdam eða Utrecht í úrslitaleik um sæti í Sambandsdeildinni.

Esbjerg 2 - 1 Thisted

SonderjyskE 3 - 2 Helsingör

Twente 4 - 0 Heerenveen (6-1 samanlagt)

Að lokum komu nokkrir Íslendingar við sögu í sænska boltanum, þar sem Davíð Kristján Ólafsson lék allan leikinn í 1-1 jafntefli Kalmar á útivelli gegn AIK er liðin mættust í efstu deild. Kalmar er með 18 stig eftir 11 umferðir.

Jón Guðni Fjóluson var þá fjarverandi vegna meiðsla er Hammarby gerði jafntefli við Halmstad, en Hammarby er með 13 stig.

Í B-deildinni voru Rúnar Þór Sigurgeirsson og Alex Þór Hauksson í byrjunarliði Öster sem tapaði heimaleik gegn Utsikten í toppbaráttunni. Öster er í öðru sæti eftir tapið, sjö stigum eftir toppliði Utsikten.

AIK 1 - 1 Kalmar

Halmstad 0 - 0 Hammarby

Öster 0 - 1 Utsikten


Athugasemdir
banner
banner