Núna styttist í jólin og janúargluggann þar í kjölfarið. Félagaskiptaglugginn út í Evrópu opnar í janúar og þá gætu nokkrir íslenskir leikmenn verið á ferðinni.
Við á Fótbolta.net höfum tekið saman lista yfir nokkra íslensku leikmenn sem þurfa í raun að færa sig um set; annað hvort þurfa þeir þá nýja áskorun eða bara að spila meira.
Við á Fótbolta.net höfum tekið saman lista yfir nokkra íslensku leikmenn sem þurfa í raun að færa sig um set; annað hvort þurfa þeir þá nýja áskorun eða bara að spila meira.
Alfons Sampsted (Birmingham)
Fyrir nokkru síðan var litið á Alfons sem fyrsta kost í stöðu hægri bakvarðar í íslenska landsliðinu. Núna er orðið býsna langt síðan hann var valinn í hópinn. Alfons hefur spilað 24 mínútur með Birmingham í ensku Championship-deildinni á tímabilinu og er lítið inn í myndinni hjá félaginu.
Arnór Ingvi Traustason (Norrköping)
Eftir fall Norrköping í sænsku B-deildina þá virðist óhjákvæmilegt að Arnór Ingvi færi sig um set. Hann hefur verið orðaður við heimkomu til Íslands og eru sögur um að Keflavík og KR hafi mikinn áhuga á honum. En hann er enn alveg nægilega góður til að spila erlendis en líklega er hann of góður fyrir sænsku B-deildina.
Atli Barkarson (Zulte Waregem)
Vinstri bakvörðurinn öflugi hefur ekkert komið við sögu á tímabilinu hjá Zulte Waregem í Belgíu. Atli fór í aðgerð vegna axlarmeiðsla eftir síðasta tímabil en liðið tryggði sér þá sigur í næst efstu deild. Hann vonaðist til að vera klár fyrir fyrstu leikina í efstu deild en hann hefur ekkert komið við sögu eftir 18 umferðir og aðeins einu sinni verið í hópnum.
Hákon Rafn Valdimarsson (Brentford)
Er á sínu öðru tímabili með Brentford en hefur á þeim tíma verið varamarkvörður og nánast eingöngu spilað bikarleiki. Missti byrjunarliðssæti sitt í landsliðinu þar sem hann hefur lítið sem ekkert verið að spila. Fínt að æfa með liði í ensku úrvalsdeildinni en verður að fara að spila.
Hilmir Rafn Mikaelsson (Viking)
Hilmir kom við sögu í tólf deildarleikjum með Viking sem varð norskur meistari á dögunum, byrjaði tvo þeirra og skoraði tvö mörk. Hann kom ekki við sögu í tíu síðustu deildarleikjum liðsins. Þessi efnilegi sóknarmaður þarf að fara að spila reglulega og það er erfitt að sjá það gerist á þessum tímapunkti hjá norsku meisturunum.
Hlynur Freyr Karlsson (Brommapojkarna)
Fyrirliði U21 landsliðsins spilaði 13 leiki í sænsku úrvalsdeildinni með Brommapojkarna á síðastliðnu tímabili. Undir lok tímabilsins var hann hins vegar mikið á bekknum og stundum út úr hóp. Hann þarf að koma sér í lið þar sem hann spilar alla leiki og er í lykilhlutverki þar sem hann er framtíðarmaður í A-landsliðinu.
Jón Dagur Þorsteinsson (Hertha Berlín)
Skiptin yfir til Hertha Berlín hafa ekki gengið alveg sem skildi. Jón Dagur spilaði 18 leiki á síðasta tímabili og lagði upp eitt mark í þýsku B-deildinni á síðustu leiktíð. Á þessu tímabili hefur hann komið við sögu í tíu deildarleikjum án þess að skora eða leggja upp. Jón Dagur hefur verið inn og út úr liðinu, en hann þarf ferska áskorun.
Kolbeinn Birgir Finnsson (Utrecht)
Það hefur lítið gengið upp hjá Kolbeini eftir skiptin til Utrecht í Hollandi. Hann er eiginlega límdur við varamannabekkinn og fær lítið sem ekkert að spila. Hann þarf að fara í umhverfi þar sem hann fær traust og fær að spila. Hann er búinn að missa sæti sitt í íslenska landsliðshópnum.
Ísak Andri Sigurgeirsson (Norrköping)
Nýkrýndir Svíþjóðarmeistarar Mjällby hafa áhuga á því að fá Ísak Andra til sín eftir flott tímabil hans með Norrköping. Ísak féll niður í B-deildina með Norrköping í síðasta mánuði, en hann hafði unnið sér fast sæti í liðinu fyrir tímabilið og var með þeirra betri mönnum á erfiðri leiktíð.
Rúnar Alex Rúnarsson (FC Kaupmannahöfn)
Er svolítið gleymdur hjá FC Kaupmannahöfn þar sem hann fær ekkert að spila. Lífið er örugglega fínt í Kaupmannahöfn en það er liðið eitt og hálft ár frá því að Rúnar Alex spilaði keppnisleik með danska félaginu. Hann er út úr myndinni hjá landsliðinu þar sem hann spilar ekkert.
Stefán Ingi Sigurðarson (Sandefjord)
Sóknarmaðurinn öflugi hefur spilað frábærlega með Sandefjord í Noregi og það hefur myndast mikill áhugi á honum vegna þess. Það hljóta að koma tilboð í hann í janúar og hann er væntanlega tilbúinn að stökkva á það til að koma sér enn nær íslenska landsliðinu.
Sveinn Aron Guðjohnsen (Sarpsborg)
Er núna á mála hjá Sarpsborg í Noregi þar sem hann hefur verið inn og út úr liðinu. Hefur mikið verið í því að koma inn af bekknum en líka svolítið lent í því að vera ónotaður varamaður. Það væri sniðugt fyrir hann að skoða í kringum sig í janúar til að fá að spila meira.
Þórir Jóhann Helgason (Lecce)
Þórir er 25 ára Hafnfirðingur, miðjumaður, sem hefur lítið spilað með liði sínu á tímabilinu, einungis komið við sögu í fimm leikjum og aðeins hefur einn þeirra verið byrjunarliðsleikur í ítölsku úrvalsdeildinni. Hann hefur verið orðaður við Brann í Noregi og Sampdoria á Ítalíu en það er vonandi að hann fái gott skref í janúar. Það væri ekki slæmt að fara í hlýjan faðm Freys Alexanderssonar í Bergen.
Athugasemdir



