Strasbourg 3 - 1 Breiðablik
1-0 Sebastian Nanasi ('11 )
1-1 Höskuldur Gunnlaugsson ('37 )
2-1 Martial Godo ('80 )
3-1 Julio Enciso ('94 )
Lestu um leikinn
1-0 Sebastian Nanasi ('11 )
1-1 Höskuldur Gunnlaugsson ('37 )
2-1 Martial Godo ('80 )
3-1 Julio Enciso ('94 )
Lestu um leikinn
Breiðablik er úr leik í Sambandsdeild Evrópu eftir að hafa tapað fyrir Strasbourg, 3-1, í Frakklandi í kvöld.
Strasbourg er eitt sterkasta lið Sambandsdeildarinnar í ár en Blikar vissu fyrir leikinn að þrjú stig gætu fleytt þeim áfram og reyndu þeir allt til þess að landa þeim í kvöld.
Sebastian Nanasi kom Strasbourg í forystu á 11. mínútu leiksins. Frakkarnir færðu boltann frá hægri til vinstri og rákust þeir Viktor Karl Einarsson og Arnór Gauti Jónsson saman. Ben Chilwell fékk boltann, kom honum á Nanasi sem tók á móti boltanum og setti boltann í fjærhornið.
Blikar áttu góðan kafla seinni hluta fyrri hálfleiks og átti Andri Rafn Yeoman skot sem fór af varnarmanni og í stöngina, en tíu mínútum síðar kom jöfnunarmarkið.
Kristinn Jónsson kom með fyrirgjöfina og náði Ágúst Orri Þorsteinsson að koma við boltann og þaðan á Höskuld Gunnlaugsson sem skoraði og gaf Blikum von.
Snemma í síðari hálfleiknum skoraði Martial Godo, en hann var rangstæður. VAR tók sér full langan tíma í að skoða markið, en komst á endanum að þeirri niðurstöðu að hann væri rangstæður og áfram hélt leikurinn.
Heimamenn fengu hvert dauðafærið á fætur öðru og í raun ótrúlegt að þeir hafi ekki skorað að minnsta kosti tvö eða þrjú mörk.
Tíu mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma kom markið sem Strasbourg var að leita að er Julio Enciso renndi boltanum inn á Godo sem setti boltann í fjærstöngina og inn.
Aron Bjarnason átti skot í þverslá undir lok leiksins áður en Enciso tryggði Strasbourg sigurinn eftir annan klaufaskap er Arnór Gauti tók innkast til baka á Gabríel Snæ Hallsson. Erfiður bolti sem Gabríel setti upp í loftið og upp úr því keyrðu heimamenn fram og var það Enciso sem kláraði dæmið.
Fyllilega verðskuldað hjá Frökkunum sem eru komnir áfram í 16-liða úrslit Sambandsdeildarinnar og tóku toppsætið, en Blikar eru úr leik.
Blikar höfnuðu í 30. sæti með 5 stig. Eini sigur liðsins kom gegn Shamrock Rovers í síðustu umferð. Einnig gerðu þeir jafntefli við KuPS frá Finnlandi og Samsunspor frá Tyrklandi.
Athugasemdir


