Klukkan 20:00 að íslenskum tíma tekur Strasbourg á móti Breiðabliki í lokaumferð Sambandsdeildinnar.
Spilað verður á Stade de La Meinau, heimavelli Strasbourg. Breiðablik þarf að vinna leikinn til að eiga möguleika á sæti í umspili, en Strasbourg er á toppi deildarinnar og öruggt með sæti í 16-liða úrslitum keppninnar.
Spilað verður á Stade de La Meinau, heimavelli Strasbourg. Breiðablik þarf að vinna leikinn til að eiga möguleika á sæti í umspili, en Strasbourg er á toppi deildarinnar og öruggt með sæti í 16-liða úrslitum keppninnar.
Glænýtt hybrid gras er á vellinum, einungis hefur verið spilað á því einu sinni fyrir leikinn í kvöld. Hybrid gras er blanda af venjulegu grasi og gervigrasi. Það er t.d. hybrid-gras á Laugardalsvelli og æfingavæði FH.
„Mér leist mjög vel á aðstæður, þetta er mjög flottur völlur, þeir eru nýbúnir að leggja nýtt gras. Þetta er búið að vera mjög flott, geðveikar aðstæður til að spila fótbolta," sagði Arnór Gauti Jónsson, leikmaður Breiðabliks, eftir æfingu liðsins í gær.
Blikar spiluðu á Laugardalsvelli fyrir viku síðan. Hvernig er þetta samanborið við Laugardalsvöll?
„Ég verð að hrósa KSÍ og starfsmönnum, Kidda (vallarstjóra) og co., Laugardalsvöllur er mjög flottur, í mjög góðu standi og þeir ná að halda honum geggjuðum þótt það sé kuldi og jafnvel frost. Völlurinn er mjög sléttur og undirlagið gott."
„KSÍ er að reyna gera þetta allt betra. Eigum við ekki að setja smá pressu? Grösin eru svipuð en það er mikill munur á aðstöðunni," sagði Arnór Gauti.
Kristinn Jónsson, samherji Arnórs Gauta, sagði að völlurinn væri frekar harður.
„Völlurinn er geggjaður, þetta er hybrid-gras eins og á Laugardalsvelli, völlurinn sjálfur er mjög flottur, grasið er hart að mörgu leyti en boltinn rennur vel og þægilegt að spila á honum. Maður þarf eina æfingu til að venjast þessu, komandi af gervigrasi," sagði Kristinn.
Athugasemdir




