Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 04. júlí 2022 19:56
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Tíu leikmenn Vals náðu ekki að halda út gegn KA
Nökkvi Þeyr gerði jöfnunarmark KA
Nökkvi Þeyr gerði jöfnunarmark KA
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
KA 1 - 1 Valur
0-1 Tryggvi Hrafn Haraldsson ('64 )
1-1 Nökkvi Þeyr Þórisson ('82 )
Rautt spjald: Guðmundur Andri Tryggvason, Valur ('68) Lestu um leikinn

KA og Valur gerðu 1-1 jafntefli í 11. umferð Bestu deildar karla í kvöld en leikurinn var spilaður á Greifavellinum á Akureyri. Guðmundur Andri Tryggvason fékk að líta rauða spjaldið þegar rúmar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum og náðu heimamenn að nýta sér liðsmuninn og jafna.

Valsmenn voru ekki langt frá því að skora strax á 2. mínútu er Arnór Smárason átti skalla í slá. Gestirnir voru hættulegri aðilinn fyrstu mínúturnar en lítið markvert átti sér stað og sá Erlendur Eiríksson, dómari, enga ástæðu til að hafa uppbótartíma.

Elfar Árni Aðalsteinsson átti skot af D-boganum á 49. mínútu en boltinn fór yfir mark Valsara. Á 62. mínútu kom Guðmundur Andri Tryggvason sér svo í dauðafæri en KA-menn björguðu á síðustu stundu.

Tveimur mínútum síðar náði Tryggvi Hrafn Haraldsson forystunni fyrir Val. Ágúst Eðvald Hlynsson átti langa sendingu fram völlinn á Tryggva sem var aleinn og nýtti hann það vel með góðu marki.

Valsarar urðu fyrir blóðtöku á 68. mínútu leiksins er Guðmundur Andri fékk að líta rauða spjaldið. Sendingin fram völlinn var ekki nógu nákvæm og náði Guðmundur ekki til boltans en þegar Kristijan Jajalo ætlaði að grípa boltann sló Guðmundur til hans og var þar með rekinn af velli.

Heimamenn bættu aðeins í sóknina og uppskáru mark fjórtán mínútum síðar. Andri Fannar Stefánsson átti þá sendingu á Nökkva Þeyr Þórisson og skoraði hann af miklu öryggi.

Nökkvi Þeyr féll í teignum undir lok leiks og vildu KA-menn fá víti en ekkert dæmt. Heimamenn reyndu og reyndu að ná inn sigurmarki en sætta sig við stig úr því sem var komið.

Lokatölur 1-1. Valur er í 4. sæti með 20 stig en KA einu sæti neðar með 18 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner