Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 05. júlí 2016 11:45
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Met féllu - Takk kærlega fyrir okkur!
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Icelandair
Túristadagur í París.
Túristadagur í París.
Mynd: Böddi The Great
Fjölmiðlahópur á hótelinu í Annecy.
Fjölmiðlahópur á hótelinu í Annecy.
Mynd: Fótbolti.net
Annecy er eins og okkar annað heimili.
Annecy er eins og okkar annað heimili.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í dag er nákvæmlega mánuður síðan ég og Hafliði Breiðfjörð flugum með strákunum okkar á Evrópumótið í Frakklandi. Það er vel við hæfi að ég sitji hér á flugvellinum í París og skrifa þennan pistil meðan ég bíð eftir að flogið verði með okkur heim.

Nokkrum dögum eftir að við komum til Frakklands bættust þrír starfsmenn Fótbolta.net til viðbótar við hópinn ásamt því að sá sjötti færði okkur sérstaklega efni frá stuðningsmönnum og fólki í stúkunni. Ofan á það hafa okkar menn heima á Íslandi verið hrikalega öflugir að skila fréttum um Evrópumótið.

Þessir 28 dagar hafa verið viðburðaríkir og magnaðir. Úr varð skemmtilegasti vinnumánuður sem ég hef upplifað, þrátt fyrir allar öryggisleitirnar, rútu-, lestar- og flugferðirnar, takmarkaðan svefn og óreglulegar máltíðir.

Hvert lestrarmetið á Fótbolta.net á fætur öðru hefur verið slegið meðan við höfum verið í Frakklandi og í gær komu stórar tölur í hús. 169.372 lesendur, 709.680 heimsóknir og 2.796.895 flettingar á einni viku. Geggjað! Fótboltafárið endurspeglast í stærstu viku í sögu Fótbolta.net.

Íslenska landsliðið hefur búið til tíma fyrir íslensku þjóðina sem aldrei gleymist. Þvílíkt lið sem alltaf mun lifa í sögunni. Maður er svo þakklátur að hafa fengið að fylgjast með þróun liðs og leikmanna, fjallað um EM U21 í Danmörku og elt liðið um alla Evrópu og jafnvel til Asíu (Kasakstan). Núna í Frakklandi náði allt nýjum hæðum og hópurinn fékk glæsilegar og verðskuldaðar móttökur heima á Íslandi í gær.

Íslendingar hafa viljað drekka í sig allt varðandi íslenska liðið og höfum við gert okkar besta til að skila því heim. Ekki bara í gegnum síðuna heldur einnig í útvarpsþáttum, hlaðvarpsþáttum og samskiptamiðlum eins og Twitter, Instagram og Snapchat.

Oft hef ég pirrað mig yfir því að Íslendingar séu full neikvæðir, sérstaklega í netheimum þar sem tuð og væl ríkir oft frekar en það jákvæða. Þennan mánuð hefur staðan verið allt önnur. Vonandi eitthvað sem koma skal. Það hefur verið gaman að fá þessi gríðarlega góðu viðbrögð lesenda, ekki bara í lestrartölum heldur einnig frá þeim sem hafa stoppað okkur úti á götu eða sent okkur línu.

Fyrir hönd allra starfsmanna Fótbolta.net sendi ég þakkir til liðsins og starfsmanna þess fyrir góðan samstarfsvilja og magnaðan árangur. Við þökkum lesendum fyrir að vera með okkur í þessu ævintýri og einnig þökkum við kollegum okkar á öðrum fjölmiðlum fyrir frábæra samveru innan um heilbrigða samkeppni.

Sérstakar þakkir fær svo Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi KSÍ. Ómar er að láta af störfum hjá sambandinu en hann hefur svo sannarlega verið maður okkar fjölmiðla í Laugardalnum og átt sinn þátt í að bæta umfjöllun um íslenskan fótbolta.

Vonandi förum við öll saman á HM í Rússlandi 2018.
Athugasemdir
banner
banner
banner